Thursday, July 9, 2015

Karabakh að baki - Yerevan og heim ....


Nú erum við farin frá Karabakh og við tekur leiðin langa til Yerevan.  Það er ágætt að nota tímann á leiðinni til að skrifa þessa síðustu færslu því þó að umhverfið sé áhugavert þá dugar það ekki til að halda mér vakandi í þessa 7 tima sem aktsturinn yfir fjöllin á að taka. 

En það var heilmikil upplifun að koma til Karabakh.   Þar eins og víða annars staðar í hinni víðu veröld sér fólk litla framtíð í landinu sínu.  Samkvæmt opinberum tölum eru íbúar skráðir rúmlega 300 þúsund í landinu.  En allir sem við töluðum við voru á þeirri skoðun að í raun væru þeir ekki nema 200 þúsund þar sem svo margir væru farnir annað. Þessir brottfluttu virðast síðan hafa miklar taugar til landsins og friða samviskuna með gegndarlausum fjárframlögum til hinna ýmsu verkefna, gáfulegra sem ógáfulegra.  Hér segja menn að um 50.000 manns séu í hernum í Karabakh sem ég á líka bágt með að trúa.  Það er ekki langt síðan að hér var háð blóðug styrjöld og allar fjölskyldur hafa misst einhvern sér nákominn, kirkjugarðarnir bera þess líka merki.  Það er gríðrlega kostnaðarsamt fyrir samfélagið að þurfa að lagfæra og endubyggja það sem hernaðurinn hefur eyðilegt.  En sagan hefur kennt þessu fólki að hér er sjaldan friður og flestir eru sannfærðir um að það brjótist út bardagar hér aftur enda langi öllum í hið afar fallega og frjósama Karabakh.  Í Karabakh eru allir tilbúnir til að verja landið með öllum tiltækum ráðum og njóta þeir þar stuðnings brottfluttra karabakhs búa.

Það hversu margir hafa verið í hernum og tekið þátt í bardögum gerir líka að verkum að ansi stutt er í villimanninn finnst mér og í Karabakh ríkir frumskógarlögmálið.  Samt er mjög friðsælt og gott að vera hér, engu er stolið, aldrei brotist inn og konur eru algjörlega óhultar, hvar og hvenær sem er.   Enda segir Johnny að ef einhver gerir eitthvað svoleiðis, nú  þá er hann bara skotinn, strax!  Ekki mjög flókið.  

Um leið og við fórum yfir landamæri Armeníu þá setti bílstjórinn í fluggírinn og tók upp þetta undarlega aksturslag að vera út um allt a veginum og keyra alveg eins og óður maður.   Hann segist hafa keypt sér sérstakar númeraplötur sem kosta um 18.000 dollara og með þessum plötum má hann keyra alveg eins og honum lystir og enginn má stöðva hann,  lögreglan vinkar honum framhjá og aðrir bílar spítast ú í kant eins og flugur þegar við brunum eftir miðlínu eða einfaldlega á röngum vegarhelmingi.  Á meðan reykir bílstjórinn eins og skorsteinn og malar í símann allan tímann, á um 140 km hraða þegar mest var.  Ég hef tamið mér aðdáunarverða yfirvegun og er því eiginlega alveg sama þó að við næstum því tökumst á loft á þessum holóttu og kræklóttu vegum.   Enda þýðir ekki að hafa skoðun hér.   Mér finnst reyndar furðulegast hvernig honum dettur til hugar að fara svona með nýjan Land Cruiser.  Hann mun ekki endast lengi með þessu áframhaldi!    Síðan er hann með Armenu músík á hæsta allan tímann - hún er mig lifandi að drepa..  Ef ég heyri einu sinni enn i duduk flautunni þá tryllist ég .....

Á leiðinni keyrðum við fram hjá litlu þori þar sem mikið var af hálfbyggðum og/eða tómum húsum,  Þesi hús voru ætluð flótttamönum frá Sýrlandi sem neituðu svo að vera á svona afskekktum stað.  Það hefur greinilega átt að reka mér markvissa byggðastengu og stuðla að fólksfjölgun í sveitinni.  En meira að segja stríðshrjáðir flóttamenn láta ekki bjóða sér það að vera plantað einhvers staðar í óbýggðum með enga mguleika til afla sér líllfsviðurværis. 

Eftir að hafa verið hér er ég svo innilega þakklát fyrir góða almenna menntun okkar  Íslendinga.  Hér veit fólk yfirleitt ekki neitt um neitt.  Hvað landið er stórt, hversu margir búa hér, hverjir megin atvinnuvegir, hvað er markvert að sjá og annað í þeim dúr.. Starfsfólkið í móttökunni  á hótelinu i Stepanakert vissi ekki einu sinni hvað snéri upp eða niður á korti af miðbænum og gat ekki merkt hótelið inná og hvað þá miðbæinn.

Svo til enginn getur tjáð sig á ensku en rússneskan er að virka vel. Aumingja Elita er búin að túlka og túlka og hefur án vafa bætt sig helling í islensku á þessum tima.  Í Karabakh sáum við einu sinni "ljósa" útlendinga en það var í ráðuneytinu þar sem við skráðum okkur inn í landið.  Annars voru fáir vestrænir túristar í Karabakh!  Aftur á móti er nokkuð af ferðamönnum frá Rússlandi og Georgíu og svo auðvitað brottfluttir sem eru þorri þeirra sem heimsækja landið. 

Annars komumst við heilu og höldnu til Yerevan og auðvitað á miklu skemmri tíma en við reiknuðum með í upphafi  - eðlilega - miðað við aksturslagið. 

Við Elita þurftum að fara  beint á spítalann um leið og við komum til Yerevan til a ganga frá pappírum og útskrifast formlega.  Þar var okkur, eins og alltaf, tekið með kostum og kynjum.  Fólikið er klárt og gott og vill allt fyrir mann gera en aðstaðan er vægast sagt bágborin og þau viðurkenna það alveg.  Þarna vantar líka stórkostlega uppá þrif og almenna umhirðu. Það gerir nú enginn meira en hann þarf virðist vera.  Þegar við komum hittum við fyrir yfirhjúkrunarkonuna sem lá í einu af sjúkrarúmunum og malaði í símann.  Hún hætti því ekkert þó að við kæmum okkur fyrir á rúminu við hliðina.  Það er nú sem ég sæji þetta gerast heima.  Unnur Þormóðs bara liggjandi í sjúkrarúmi, blaðrandi við ættingjana í óratíma fyrir framan sjúklingana ! ! ! 

En litli ofnæmlslæknirinn minn mætti svo á svæðið og var ánægð með sjúklinginn.  Sendi mig heim með skýrslur á rússnesku sem ég á að koma til minna lækna heima.  Það verður skemmtilegt heimsókn. 

Ráfuðum um Yerevan það sem eftir lifði dags.  Heimsóttum Vernissage markaðinn aftur.  Fórum út að borða á skemmtilegum veitingastað sem tileinkaður er einni alvinsælustu bíómynd Rússa "Góða ferð - herramaður"  eða eitthvað í þá áttina. Þar fengum við okkur hacapuri í síðasta sinn og hinar ómissandi kryddjurtir, ásamt tablulleh sem er ótrúega gómsætt líka. 

Hitinn í gærdag fór yfir 40 gráður í borginni svo við vorum gjörsamlega að bráðna.  Um kvöldið lækkaði hann í svona 32-35 sem var allt allt annað.  En annars hefur hitinn ekki angrað mig jafn mikið og ég átti von á.  Inn í Karrabakh var aðeins svalara og betra loft en hér er svo þurrt að maður finnur ekki eins fyrir hitanum og ef það væri meiri raki i lofti. 

Kvöddum Yerevan með því að hanga lengi á Republica torginu, dáðumst að mannlífinu og syngjandi gosbrunnunum sem þarna eru og vorum öll staðráðin í því að koma einhvern tíma aftur. 


P.S.
Í fluginu frá Yerevan í morgun blasti Ararat við í allri sinni dýrð. Með sína rúmu  5.100 metra gnæfir það yfr borgina og svæðin hér í kring.  Tignarleg táknmynd Armeniu....Ararat í mistrinu í fjarska á leiðinni til Yerevan.  Það grillti allavega í það  :)

Wednesday, July 8, 2015

2000 ára gamalt tré og ný uppskera

Keyrðum óravegu um sveitirnar í dag til Amaras kirkjunnar sem byggð í byrjun fjórðu aldar.  Þetta er afar falleg kirkja eins og þær eru allar hér en þessi er umlukin virkisveggjum sem áður hýstu munka og fyrsta skólann sem hér var stofnaður.  Hér var Armenska stafrófið fundið upp.  Verð að segja að þeir hefðu nú betur sleppt því og einfaldað lif margra í staðinn  :-)

Hér í landi kaupir Elita alltaf kerti þegar við komum i kirkjurnar og svo verð ég að biðja fyrir einhverjum annað hvort lífs eða liðnum  Það er eins gott að fjölskylda mín verði heilbrigð og hamingjusöm miðað við á hversu mörgum guðlegum stöðum þess hefur verið óskað. 


Við Amaras lenti Lárus í vinnu því þar var verið að týna "tútti"  eins og þeir segja hér.  Þá klifrar einn upp í trén, lemur i greinarnar og niður falla þessi ósköp af "tutti" berjum og þá stóð Lárus þar fyrir neðan með fleirum og veiddi berin í dúk.  Gaman að þessu þegar týnt er af þremur trjám 3 tré en þetta er kleppsvinna þegar um heilan akur er að ræða 


hér er svo Lárus með nýju vinunum sínum. 

Fórum líka og skoðuðum "The Platan Tree"  sem er um 2000 ára gamalt tré að því að sagt er.  Það er yfir 27 metrar að ummáli og um 54 metra hátt.  Eldingar hafa leikið tréð grátt þannig að núna er hægt að ganga í gegnum það á mörgum stöðum.   Virkilega gaman að sjá þetta.  Það á sitt eigið vegabréf sem sýnir status þess á meðal þjóðarinnar.Víða við vegina eru litlir veitingastaðir eins og þessi sem var að bjóða til sölu nýskorinn maís.
Við urðum auðvitað að smakka ...Karabakh er afskaplega fallegt landsvæði og ekki skrýtið þó bæði Armenar og Azerar ásælist þetta gróskumikla land.  Hér virðist allt vaxa og tré og gróður er upp um öll fjöll ólílkt því sem nágrannaríkin búa við. 


Fórum í lokin að skoða papik og tatik  (afi og amma)  sem eru einkennistákn Karabak,  tvær fallegar styttur í útjaðri Stepanenkerth.  Hann Johnny sem  er búinn að vera með okkur í dag segir að þetta séu svo sannarlega orðin einkennistákn Karabakh því nú sé svo komið að einungis ömmur og afar séu eftir hér, allir aðrir eru farnir til annarra landa i leit að betri lífsgæðum. Tuesday, July 7, 2015

Hálshöggnar hænur og hjálparstarf

Mikið rosalega svakalega er ég orðin þreytt á þessum bitum.  Skil ekki hvað þetta er.  Er búin að vera næstum því innlögð á spítala, með lyfjagjöf í æð í þrjá daga, töflur og krem, fyrir nú utan að hafa fengið heimsókn frá vígalegum hjúkrunarfræðingi hingað í Karabakh sem gefur mér sprautur í óæðri endann sem er ekki mjög þægilegt.   Er í sokkum og fer ekki út í gras nema tilneydd.... Hvernig í veraldarsögunni get ég því verið komin með 7 leiðindabit á fæturna eftir daginn í dag. Þetta setur óneitanlega dempara á gleðina verð ég að segja. 

En það hjálpar kannski ekki þegar maður kemur sér í svona aðstæður eins og sjást hér á myndunum.  

Þetta er hádegisverðarstaður dagsins.  Hið óimissandi grillaða grænmeti og kjöt á leiðinni, búið að hálshöggva eina hænu og grilla handa okkur og hinar biðu á dauðadeildinni þangað til við vorum byrjuðað borða, þá voru þær skornar á háls svona næstum því við matborðið. 

Hér er engin Elsa frá Heilbrigðiseftiilitinu og gæðastaðlar eru ekki til.  Þetta er semsagt veitingastaðurinn:


Og eldunaraðstaðan...


Svona var ástandið á þeim gamla eftir matinn en veitingakoan var við öllu búin.  Lárus var líka mældur ! 


Þetta er hún Malene sem er mikil vinkona mín.  Hún er barnabarn Rudik og finnst óskpalega gaman að tala ensku, ólíkt eiginlega öllum öðrum hér um slóðir. 
Verð reyndar að viðurkenna að mér væri sama þó ég sæi ekki schaslick í þónokkurn tíma núna.  Það er alltaf og alls staðar það sama í matinn og þetta er svo alltof, alltof mikið alltaf...  Svo er það tekið sem helber dónaskapur ef maður smakkar ekki allt og drekkur vodka með í ómældu magni. 

Reyndar er þessi vodkadýrkun alveg gengin út í öfgar.  Hér var hellt yfir mig vodka í dag til að verjast flugunum og vodka notað til að sótthreinsa fyrir sprauturnar.  Vodka er notað til að sótthreinsa á sér hendurnar og svo á það að vera svo gott með morgunmatnum, koma meltingunni af stað, með hádegismatnum eykur það manni hreysti og lífslíkur og með kvöldmatunum bætir það meltinguna.  Merkilegt að fólkið hér skuli ekki vera unglegra og heilsuhraustara miðað við hvað það innbyrðir af þessum drykk. 

Við vorum sótt á hótelið eldsnemma til að fara í morgunmat með stórfjölskyldunn.  Það tók tímann sinn enda ókjör af mat sem þarf að innbyrða.   Eftir það var lagt af stað í ferð um Karabakh, ætla að hafa sem fæst orð um aksturslagið enda var sá gamli búinn að drekka þónokkuð af vodka áður en hann settist undir stýri, með of marga í bílnum og eingöngu lafhræddir Íslendingar í öryggisbeltum. 

Kirkjur eru helstu kennileyti hverrar sveitar og því þarf að heimsækja þær margar.  Það var ekki brugðið  út frá þeirri venju í dag.   Fórum síðan á stað sem heitir Gandazar sem íbúar hér eru afar stoltir af en mér fannst harla furðulegur.  Forstjóri General Motors er Armeni, vellauðugur, og hann ákvað að koma upp skemmtigarði í bandarískum stíl lengst inní skógi  hér í Karabakh. Hann hefur byggt helling af byggingum í Las Vegas stíl en síðan er viðhaldið og umhirðan öll skelfileg. Þarna var m.a. dýragarður með villtum dýrum hér úr skógunum, búrin skelfileg, lítil og skítug og dýrin flest hver geðbiluð sýndist mér.  Öryggið ekkert og starfsmennirnir í öngum sínum af hræðslu við villidýrin sem þarna voru. Skógarbirnir og ljón eru nú engin lömb að leika sér við...   Alveg furðulegur staður en íbúarnir hér eru ægilega stoltir af þessari uppbyggingu.  Held að forstjórinn ætti nú að fara að líta við á staðnum sínum!

Rétt hjá Gandazar var þessi veggur.  Hann er búinn til úr bílnúmeraplötum Azeranna eftir að þeir höfðu verið reknir úr landi.  Um 1 og hálf milljón íbúa Karabakh voru Azerar en í stríðinu voru opnaðar leiðir fyrir þetta fólk til að yfirgefa heimili sín og halda til Azerbaijan.  Þar hefst það enn við í flóttamannabúðum við skelfilegar aðstæður.  Spilling í þessum löndum er alveg hreint ótrúleg og íbúar taka henni sem sjálfsögðum hlut.  Hér eru til dæmis hraðamyndavélar meðfram vegum og sektirnar himinháar.  Vélarnar eru í eigu sonar forsetans sem fær tekjurnar í eigin vasa.  Á meðan eru allir innviðir í molum.  


Fórum  til borgarinnar Shushi sem er önnur stærsta borgin hér og gnæfir hér yfir höfuðborginni  Þar höfðust Azerar við í stríðinu og skutu stanslaust á Stephanenkerth í stríðinu.  Í staðinn var þessi borg svo til brennd til grunna að stríði loknu og Azerarnir hraktir í burtu.  Þarna var allt meira og minna enn í rúst þrátt fyrir að uppbygging sé í fullum gangi. 


Monday, July 6, 2015

Skrifað á langri ferð til Karabakh...

Í upphafi þessa langa pistils vil ég minna á að þetta blogg er ekki síst skrifað til að við sjálf getum munað hvað við gerðum í þessari ferð.  Þeir sem ekki nenna að lesa langlokur hætta bara hér ;-)

--------------
Bílstjórinn var sendur af frændanum i Karabakh á flottasta bílnum í bænum. nýlegum Land Cruiser Prado. Hann keyrir aftur á móti eins og brjálæðingur, hér í Armeníu gilda einhverjar umferðarreglur en sú helsta sýnist mér vera sú að allir aðrir víkja fyrir jeppanum með flotta númerinu þegar hann brunar á miðjum veginum milli bíla eða hægra eða vinstra megin framúr öllu því sem á vegi hans verður.

Fyrst var keyrt  eftir veginum þar sem hvað styðst er yfir  til Azerbaijan.  Þar var um 2 metra hár varnargarður sem byggður hafði verið hægra megin við veginn til að skýla bílunum fyrir byssukúlum Azeranna, hann sést á efri myndinni.  Á þeirri neðri sjást hæðir Azerbaijan þaðan sem skotið var stanslaust á þennan veg.  Við  sáum  greinilega skotbyrgin beggja vegna við veginn sem var hálf nöturlegt..  Héðan er líka örstutt yfir til Tyrklands og ekki síður til Íran enda mættum við mörgum á írönskum númeraplötum.  Þetta er mikið ævintýri og hálf óraunverulegt.  Þegar maður horfir yfir hrjóstrugt landið og öll þessi litlu þorp sem hér eru á víð og dreif þá er erfitt á ímynda sér á hverju fólkið lifir.  Okkur var aftur á móti sagt að hér vinna flestir karlar í Rússlandi en konurnar hugsa um börn og bú og fá peninga senda frá eiginmanninum. 
Á nokkrum stöðum við veginn mættum við Jesítum á hrossum sem ráku með sér  hjarðir af nautgripum, þá reka þeir upp í fjöllin og þegar nautin hafa náð sláturstærð  koma þeir niður og selja Armenum skepnunar til slátrunar.  Þessi þjóðflokkur hefur verið hundeltur af ISIS að undanförnu og því þónokkuð í fréttum.  Því þótti mér gaman að sjá þá hér í svona góðu umhverfi.   Annars er þessi leið lengi vel svolítið eins og Húnavatnssýslan!  Stórar sléttur og  grónir gilskorningar - ef frá eru talin Kákasusfjöllin í fjarska sem hafa enga skýrskotun til Húnavatnssýslunnar.  Það kólnaði hratt eftir því sem ofar dró og efst i fjöllunum sem við fórum yfir fór hitinn í 24 gráður sem var ólíkt þægilegra en 40 gráðurnar.    
Hér er umferðarmenning með alversta móti, þó þeir segi sjálfir afar stoltir að þetta sé nú ólikt betra en hinu megin við hólinn í Íran.  Öryggisbelti eru í bílnum sem bílstjórinn okkar hefur mikið fyrir því að nota eingöngu þegar hann heldur að löggan sjái til.  Í öðru farþegasætinu aftur í ekkert öryggisbelti.  Okkur er tjáð að fólk verði að athlægi í Karabakh ef það notar örygisbelti.  Í hinu orðinu segir hann okkur síðan dapuirlegar sögur af unga fólkinu hér  sem fer alltof ungt að keyra, keyrir yfireitt ölvað  og drepur sig í bílslysum umvörpum.   Fáir virðast tengja saman orsök og afleiðingu hér.   
Við keyrðum hér fram á lítinn vörubíl sem hafði misst helling af korni aftan af pallinum og heil fjölskylda var því að skófla því upp í fötur.  En nei það var nú víst ekki aldeilis raunin.  Þetta var víst ekki óhapp, heldur er alvanalegt að fólk noti veginn til að þurrka kornið sitt í sólinni yfir daginn ! !  ! Er nema von að þessi ökuferð taki á.   Veguirnn liggur hér í miklum hlykkjum, þegar farið er yfir landamærin til Karabakh eru fjöllin framundan ansi  ógnvænleg og maður vonar að vegurinn liggi ekki þar yfir þau  ! !  !
Goris er síðasta borgin í Armeníu áður en við förum inn til Karabakh sem er í dalverpi í hæðunum hér fyrir ofan.  Nú er sólin horfin á bakvið  fjöllin og farið að rökkva í Kákasusfjöllunum. Nú höfum viið klukkutíma til að koma okkur til Stephanakert í bjötu því myrkrið  hellist hér yfir á augabragði og ekki langar mig til að vera á þessum vegi í myrkri.  Reyndar hef ég orðið tröllatrú  á ökumanninum úr því erum þó komin þetta langt án óhappa.  Nú vorum við að fara yfir landamærastöðina milli Armeníu  og Karabakh.  Þar vöktu vegabréfin okkar heilmikla athygli eins og alltaf.   Þarna vourm við skráð inn í landið en á morgun þurfum við að fara í Innanríkisráðuneytið og tilkynna okkur inn með formlegum hætti.

Það er gaman að sjá hvernig gróður og umhverfi breytist eftir því sem Armenía fjarlægist og við komum lengra inn í Karabakh.  Hér taka við þéttir skógar upp um allar hlíðar og blómailmur í loftinu.  Greni í blandi við aðrar trjátegundir er hér út um allt á meðan að Armenía er aftur á  móti eitt stórt sólbakað grjótstykki. 

Bílstjórinn heldur áfram að hrella okkur og gerir ekki annað en að sýna okkur staði þar sem bílar hafa farið út af og fólk látið lífið.  Hér í fjöllunum hrapar að meðaltali einn bíll á dag á veturna og fjöldi fólks lætur lílfð.  Enda allir fullir að keyra og enginn að fara eftir umferðarreglunum og vegurinn er aldrei mokaður.  Hvað fólkið er að þvælast við þessar aðstæður er alveg ofvaxið mínum skilningi en auðvitað þarf að sækja læknisþjónustu og ýmsilegt annað sem gerir bílferðir nauðsynlegar. 

Nú er farið að rökkva all verulega en við sjáum ennþá ágætlega til.  Mér skilst að það styttist í áfangastað enda erum við búin að keyra núna í rétt tæpa 7 tíma - 350 km reyndar með góðum stoppum á leiðinni. Rudii frændi Grantasar er búinn að sjá til þess að við erum vel haldin og hann hefur pantað á undan okkur alla leiðina.  Við borðuðum til dæmis frábæran mat á flottum veitingastað þar sem ´básar löfðu yfir á sem virðist vera afar vinælt arkitektúr hér um slóðir.  Mjög fallegur staður og gómsætur matur eins og alltaf.  Ég ar afar þakklát því að bílstjórinn sagðist ekki geta drukkið vegna einhvers líkamslegs ágalla og þar mað var einu áhyggjuefninu færra með í för. 


Vil endilega benda einhleypum vinkonum mínum á það að blá augu og ljóst hár virðist vera ávísun á athygli hér í landi, skiptir þá aldur viðkomandi greinilega engu máli.  Það var gaman að sjá að ástleytinn bílstjórinn var farinn að fara í taugarnar á Lárusi sem alvarlega var farinn að íhuga að losa sig við frúna upp í ferðakostnaðinn   :-)
Þegar við komum til Stepanekert var orðið myrkt,  okkur var skutlað að litlum veitingastað niður við á.  Þar beið heill hópur af karlmönnum, ættingar Grantasar.  Var okkur tekið með kostum og kynjum matur í hraukum beið, vodka eins og enginn hafði gott af og gómsætir ávextir beint af trjánum í garðinum.  Höfuð ættarinnar heitir Rudik og hann stýrir greinilega ýmsu hér í borg.  Þrátt fyrir ótölulegan fjölda vodka glasa vinkaði hann afar kumpánlega úr cadillac jeppanum sínum til allra lögreglumanna sem við mættum á leiðinni á hótelið glæsilega þar sem við Lárus gistum í kvöld.  Elita aftur á móti er með ættingjum á hóteli við ána.  Þarna græddum við helling á þessu furðulega bitofnæmi sem mér hefur tekist að krækja mér í.  Ég hefði verið étin upp til agna í loftkælingarlausu gistiheimili á árbakkanum.
Verðum sótt eldsnemma í fyrramálið og þá tekur við enn einn viðburðarríkur dagur í þessari ferð.  

Þarf reyndar einnig að finna hjúkrunarkonu eða lækni sem getur sprautað mig tvisvar á morgun með lyfjunum sem ég fékk í Yerevan.  Vinkona mína læknirinn  hélt yfir mér langa og örugglega mergjaða ræðu á rússnesku í minni daglegu heimsókn á spítalann  um allt það sem ég má ekki gera hér í Karabakh.   Hún heimtar líka að ég sé alltaf í sokkum á meðan að sárin á fótunum eru að gróa.  Það er reyndar skynsamlegt þó að ég taki út fyrir útlitið...    Öðrum ráðleggingum er erfiðara að fylgja, ég sé nú til dæmis ekki alveg hvernig ég á að forðast öll mannétandi kvikindi hér þar sem allt er á kafi í skógi! Í skógunum hér leynast birnir, helilngur af úlfum, sjakalar, slöngur af öllum tegundum og býflugur sem éta af manni hold, fyrir nú utan allar bitflugurnar!

Beðið eftir bílnum til Karabakh.

Dagleg heimsókn mín á spítalann var ansi löng í dag og ég hef grun um að það hafi verið vegna þess að beðið var eftir nemum sem komu svo í tvígang á stofuna til mín af skoða þetta fyrirbrigði sem hér hefur skolað á land.  Var send með sprautum og lyf  "í nesti" og á að mæta aftur um leið og ég kem frá karabakh og þá fæ ég skýrlsurnar og niðurstöður úr öllum þessum prófum sem búið er að gera hér.  Reyndar á rússnesku svo það er spurning hvað ég á að gera við þetta heima ....  Læt Ómar heimilslækni um að svita yfir því :-)

En við höfðum pantað Karen og hann keyrði með okkur út um allt í morgun.  Þessi ungi maður er hreint frábær og við hefðum ekki séð nema brot að því sem við erum búin að gera ef við hefðum ekki hitt hann.  Í morgun fóru við í Ejtsemin sem er ein elsta dómkirkja kristninnar. Ótrúlega falleg og saga hennar er engu lík.  Byggð um 500 e.Krist.  Fórum líka í "litla Vaticanið" en þar eru höfuðstöðvar Armensku kirkjunnar.  Mjög gaman að koma á báða þessa staði.  
-------
Það er alveg sama hvar við höfum drepið niður fæti á ferðalögum okkar undanfarin ár, allir þekkja Ísland og þrá að koma í heimsókn.  Strákurinn í lobbýinu á hótelinu okkar hér í Yerevan á vin sem er svo heillaður af Sigurrós að hann er búinn að leggja á sig að læra íslensku til að geta þýtt textana þeirra.  Læknirinn minn á sjúkrahúsinu sem ég hitti daglega er orðin mikil vinkona okkar og hún ætlar að heimsækja okkur til Íslands með fjölskyldunni næst þegar hún á almennilegt frí, sem er víst reyndar ekki oft.  Karen, leigubílstjórinn sem við höfum eingöngu verið með, mun sjálfsagt aldrei hafa efni á Íslandsferð en hann er veikur að koma í heimsókn rétt eins og gullfallega konan hans sem á afmæli í dag.   Þau vilja ólm bjóða okkur heim í afmælisveislu á fimmtudagskvöldið þegar við komum frá Karabakh. Við erum að sjálfsögðu búin að þiggja það.   Elskulegheitin sem við njótum hér eru engu lík og það er svo auðvelt að falla fyrir þessu landi og íbúum þess.   Ég dreifi hér á báða bóga íslensku brennivíni og fjallagrasavíni, íslensku lava salti, bókum og segulstálum og öllum finnst þetta mjög merkilegt.  Hefði átt að koma með meira af bókum reyndar, sé ég núna.

En eftir örfáar mínútur verðum við sótt á hótelið og við tekur akstur inn til Karabakh, þar fáum við áritun á landamærunum sem dugar að borga fyrir.  Hittum norskan strák í gær sem ráðlagði okkur að láta ekki stimpla vegabréfið heldur að fá stimpilinn á sér blað, því þónokkur ríki hleypa ekki inn í lönd sín fólki sem hefur ferðast til Karabakh.  Við myndum til dæmis ekki komast til Azerbaijan með þannig ferðasögu.

Sunday, July 5, 2015

Frábær dagur með Karen ...

Byrjaði eins og fyrir  mig var lagt í lyfjagjöf á sjúkrahúsinu hér í Yerevan. Þar eru allir svo almennilegir að það hálfa væri nóg.  Ástandið er allt annað en ég þarf að koma á morgun aftur og helst að ná til þeirra um leið og við komum til baka frá Karabakh á fimmtudaginn.   Þá telst ég útskrifuð héðan.  Þvílíkur vandræðagangur og tímaeyðsla.  Er líka búin að bæta bitvargi við stresslistann hjá mér ásamt rjóma og flestum mjólkurvörum sem ég forðast eins og heitan eldinn nema ég sé heimavið.

En í gær höfðu Lalli og Elita kynnst ungum leigubílstjóra sem var svo óskaplega almennilegur að við pöntuðum hann allan daginn í dag.  Hann keyrði með okkur að öllum helstu kennileitum borgarinnar og miklu meira en það.

Hér eru við til dæmis The Cascade sem er frábært mannvirki, safn bæði inni og úti.  Í dag mánudag var lokað fyrir safnið innandyra og rúllustigana upp á topp.  Við gengum í staðinn upp allar 572 tröppurnar í 40 stiga hitanum sem hér var í dag. Þetta eru 5 pallar svo hægt var að anda á milli. Ýmsir nútímalegir skúlptúrar eru á hverjum palli sem gaman er að skoða.
Efst hafa þeir reyndar ekki enn lokið við mannvirkið svo þar varð að klöngrast á vinnupöllum en kom ekki að sök.  Verð reyndar að geta þess í sambandi við hitann sem ég var búin að kvíða þvílíkt fyrir að hann er ekki beint óþægilegur.  Hér er svo þurrt að það er ólíku saman að jafna eða í strandbæjum með sama hitastigi þar sem hitinn verður óbærilegur og maður jafnvel svitnar í sturtunni.  Þannig er það alls ekki hér.  Funheitt auðvitað en það er leikandi hægt að vera úti við og labba helling :-)


Rétt við The Cascade er minnismerkið Mother of Armenia sem gnæfir yfir borgina eins og Jesús í Ríó.  Glæsilegt en Lárus var ekki síður hrifinn af öllum stríðstólunum sem þarna var stillt upp. 

Eftir þetta bauð Karen, bílstjórinn okkar, í heimsókn til tengdaforeldra sinna.  Þau tóku okkur einstaklega vel og buðu uppá berjasafa og ferska ávexti beint úr garðinum, epli, apríkósur, nektarínur og ýmislegt fleira.  Þarna var verið að sjóða niður afurðirnar sem duga eiga í allan vetur.  Allt er annað hvort sultað eða sýrt og hundruðir af krukkum til i öllum geymslum hvert haust.

Hér er tengdafaðirinn ásamt eiginkonu bílstjórans en þau leystu okkur út með blómum og þessum stóra poka af ávöxtum í nesti.  Skemmtileg upplifun. Fórum þar næst i þekktustu koníaksverksmiðju Armena, Ararat. Þar var boðið upp á líflega kynningu og sýningarferð um verksmiðjuna og svo auðvitað smakk á afurðunum í lokin.  Flottasti pakkinn í boði bauð uppá 2 tegundir af 40 ára koníaki og eina af 50 ára.  Það er reyndar sama vín og Winston Churchill lét senda sér í kassavís eftir Yalta ráðstefnuna þar sem hann heillaðist svona gjörsamlega. Maður finnur alveg muninn á ungu og eldra koníaki þó maður kannski sturti ekki í sig 300 flöskum á ári eins og Churchill...
Já og ég veit vel að þetta er í raun brandý þar sem eingöngu drykkir sem framleiddir eru í cognac héraðinu mega nota það heiti.  Enginn annar munur er á framleiðslunni enda Ararat að fullu í eigu Frakka í dag.   Hér erum við Lárus svo með Churchill koníakið...


Ég bara varð að komast á Vernissage markaðinn þar sem Lárus og Elita skemmtu sér svo vel í gær og því var brunað aftur í bæinn.  Markaðurinn er gríðarstór og þar fæst allt milli himins og jarðar, teppi, skartgripir með eðalsteinum, einstakt handverk, antík vörur af öllu tagi svo það er einstakt að ráfa þarna um og skoða dýrðina.  Til hliðar er annar markaður mest með föt og heimilisvöru sem ekki var síður gaman að skoða.  Aðallega til að dáðst að verðlaginu ...
 

Fórum síðan áleiðis í bæ utan við Yerevan sem heitir Garni.  Keyrðum þar algjöran óveg lengst niður í gil til að skoða þetta stuðlaberg sem er nú með því flottasta sem ég hef séð.  Vegurinn reyndar algjör óvegur og það var ekki laust við að færi um mig þegar við vorum komin út á ystu nöf við að mæta bíl og vatnið flæddi um veginn enda gríðarleg vatnsleiðsla í honum miðjum, afar lítið niðurgrafin. 
Það er nú heldur ekki traustvekjandi að hér eru ekki öruggisbelti í aftursætum bifreiða.  Þau eru hreinlega tekin úr af því að það er bara vesen að hafa þau í, skilst mér.  Manni líður nú ekkert sérstaklega vel skröltandi laus í aftursætinu á hraðbrautunum eða á svona sveitavegum. 
En þetta er allt i lagi því Karen er svo góður bílstjóri!  Yeah right ! !  !


Þessi hörmulegi vegur leiddi okkur að frábæru veitingahúsi þar sem þrær með alls konar eldisfiski voru á stóru svæði við á sem þarna rann hjá og litlir klefar á milli kerjanna þar sem hver hópur gat verið út af fyrir sig. Þarna var tilbúin rigning á öllum þökum til að róa gestina.  Snilldarlega vel gert.  Maturinn var eins alls staðar hér í landi, framúrskarandi, rétt eins og þjónustan.  Verð síðan að gefa ykkur hér eina uppskrift að kryddjurtunum sem ég sagði ykkur frá í gær. 
Í staðinn fyrir að borða þær beint úr sátunni með salti og vodka þá setur maður fetaost í brauð eða enn betra í lavash brauð sem svipar til tortilla  raðar svo kryddjurtunum yfir og "voila"....


Södd og sæl héldum við heim á leið eftir óveginum, ekki í beltum og nú voru aðrir bílstjórar orðnir fullir.  Þá er einmitt svo gott að Karen er góður bílstjóri - hann er nefnilega alveg einn á götunum, eða þannig!

Fórum að lokum að skoða hofið í Garni sem byggt var á fyrri hluta fyrstu aldar eða um 30 e.Krist.  Það er tileinkað sólarguðnum Mahr og er byggt í grískum stíl.  Okkar ágæti bílstjóri hafði alveg rétt fyrir sér þegar hann sagði að það væri miklu skemmtilegra að skoða það í myrki.  Það sést best á myndinni hvað það er einstaklega fallegt.  


Á leiðinni heim tók ég þessa flottu mynd af sölubás í vegkantinum sem sýnir vel hvað húsmæður hér eru að gera á daginn.  Þær eru nefnilega allar með verksmiðju á heimilinu og sulta og sjóða eins og þær eiga lífið að leysa því ekki gerir karlinn handtak heimavið skv. Karen.   


Á meðan að ég tók myndina náði Karen í nokkrar greinar af kirsjuberjatré hlaðnar ljúffengum kirkjsuberjum volgum eftir hita dagsins - það er bara ekkert sem er ljúffengara held ég :-)


Saturday, July 4, 2015

42 gráður og best að vera bara inni....

Hitinn  hér í Yerevav fór í 42 gráður í dag þannig að ég var best geymd á hótelherberginu enda var það samkvæmt læknisráði! Held að ég sé aðeins skárri, allavega get ég stigið í fæturnar núna í kvöld.  Hitinn hér í kvöld var um 32 gráður en það var blástur frá fjöllunum sem gerða þetta alveg bærilegt.   


Fórum á fínan Armenskan veitingastað og lentum þar í okkar fyrsta menningarlega ágreiningi!  Okkur Lárusi bara langaði ekki í vodka með matnum en það endaði auðvitað með því eftir nokkra stund að keyptur var vodki eftir miklar yfirlýsingar um að þetta yrði að gera.  Við erum eins og þið sjáið alveg ótrúlega eftirgefanlegir ferðafélagar ! ! !   Varð reyndar að viðurkenna að það er hreinlega ekki hægt að sporðrenna armenskum mat nema með vodka við hendina.  Hér er til dæmis sett á borðið heil sáta af kryddjurtum sem maður stýfir úr hnefa.  Nú skuluð þið gera tilraun og borða dillkvist, graslauk, vorlauk, kóríander grein og kvist af sellerí bara svona með engu og allt í einum bita ! ! !  Og prófa svo að skola þessu niður með hvítvíni! Það er hreinlega útilokað!  Þá skuluð þið prófa þetta sama, dýfa kryddjurtunum í gott salt og skola þessu svo niður með vodka.  Það er bara allt annar handleggur :-)
Og nú er ég búin að auglýsa lifandi kryddjurtir svo rækilega að Ártangi mun ekki hafa við að framleiða fyrir mína tryggu lesendur....

Annars er þessi borg yndisleg.  Það vekur athygli að hér eru engir götusalar að þröngva uppá mann nokkrum hlut og hér eru heilu fjölskyldurnar niður á Republica torginu fram að miðnætti bara að spjalla og rorra um í rökkrinu.  Við gerðum það líka áður en  farið var í kvöldkaffi til Elitu sem allir sem þekkja til vita að er ansi rausnarlegt.  Erum því enn og aftur afvelta af ofáti !

Veit að vefmiðmót bloggið er óþolandi á Iphone nema maður sé með bloglovin appið, þá er þetta allt annað :-)Af sjúkrahúsum í Yerevan.

Í morgun komst ég ekki fram úr fyrir kvölum í fótunum.  Hér er víst ekki einfalt að komast til læknis þannig að það var sendur eftir mér sjúkrabíll hingað á hótelið.  Þessi yndislegi sjúkraliði eða kannski bráðaliði er nýja besta vinkona mín...

Mér var siðan tryllað inná bráðamóttökuna hér í bæ og hér á myndinni er ég komin með, vona ég, eitthvað vitrænt í æð.   Þarna kom her lækna að líta á mig, Elita túlkaði eins og herforingj því það skyldi enginn ensku.  Allavega vildu þau ekki ræða við mig.  Það fjölgaði alltaf og fjölgaði í stofunni af læknum og öðrum starfsmönnum.  Aðrir sjúklingar komu þarna á færibandi aðallega brotnir á hinum ýmsu stöðum sýndist mér.  En allir komu að skoða, í fyrsta lagi Íslendinginn og í öðru lagi þessi furðulegu bit sem allir "jesúsuðu og maríuðu" sig yfir.
Elita var svo elskuleg að segja þeim að ég væri bæjarstjóri og þá fékk ég enn betri meðferð.  Eins gott að segja þeim ekki að við séum bara 2.400, þá lendi ég kannsi aftur í klónum á einhverjum sem skilur ekki einu sinni rússnesku. 


Fyrst var talið að ég væri með svæsin ofnæmisviðbrögð og alvarlega blóðsýkingu, á þessum tímapunkti runnu fyrir sjónum mínum brot úr óskiljanlegum, drungalegum  austantjaldsmyndum þar sem læknar skera af útlimi. þegar hér var komið sögu var ég alvarlega farin að óttast gerræðislegar ákvarðanir :-)
En svo var tekin blóðprufa og hún sýndi ekki sýkingu í blóðinu.  Þess vegna var ég lögð inn á almenna deild og þá fyrst varð ég nú hrædd um líf mitt..  Eins gott að halda bara í sér allan tímann og alls ekki borða vott eða þurrt eða snerta neitt eða yfirleitt anda að sér neinu...  Elita segir að þetta sé eins og gamla Rússland.  Hér eru gólf´dúkarnir víðast gengnir ofan í fjalir.  Málningin flögnuð af veggjum, rúmin eins og skrapatól af byggðasafninu og sængurfötin ekki til að hrópa húrra yfir.  Var þarna i nokkra tíma en síðan send heim.  Þarna  fékk ég ofnæmislyf í æð sem á að drepa þetta niður.  Fékk líka töflu sem ég á að taka seinni partinn í dag.  Verð síðan að koma næstu þrjá daga til að fá þetta lyf í æð.  Hér er talið að ég sé með gríðarlegt ofnæmi fyrir einhverju kvikyndi.  Ég má því ekki koma nálægt grasi, görðum, plöntum eða slíku á meðan ég er hérna úti og fara til ofnæmislæknis um leið og ég kem heim.  Á helst ekki að vera úti í sólinni í dag og eins lítið og hægt er næstu daga.  Vera í sokkum og ekki láta hita komast að fótunum.  Þetta fannst mér verulegt gott útspil enda er hitinn í borginni nær því óbærilegur.  Hér eru núna um 42 gráður en merkilegt nokk er hægt að halda það út að sitja í skugganum ef maður hreyfir sig ekki og andar grunnt :-)


Hef reyndar mikla trú á lækninum mínum sem er kona sem greinilega nýtur mikillar virðingar hér.  Allavega voru starfsmenn hótelsins yfir sig hrifnir af því að ég skyldi lenda hjá henni.  Hún er nefnilega ekki bara læknir hún er prófessor! !   Auðvitað fékk útlendingurinn með skrýtna nafnið albestu meðferð sem völ er á hér í landi. 

Lárus hefur semsagt sloppið alveg aleinn út í borgina í dag.  Hann er búinn að hjóla hér út um allt og nýtur sín vel.  Læt vita á morgun hvernig þetta gengur allt saman ...

Friday, July 3, 2015

Komin til Yerevan - illa haldin af bitunum !

Það kom ekki aðsök að hafa ekki vegabréfsáritun til Rússlands, allavega sit ég núna í flugvél Aeroflot á leiðinni frá Moskvu til Yerevan.  Það tók reyndar örlítið á taugarnar þegar við tékkuðum okkur inn í Vilníus því stúlkan i afgreiðslunni var svo lengi að útbúa transit miðana sem við þurftum í Moskvu og að koma töskunum í rétt ferðalag.  Sem betur fer þá vorum við framarlega í röðinni en ég held að aðrir hafi verið við það að missa glóruna við það að bíða eftir þessum Íslendingum en það tók um 20 mínútur að afgreiða okkur.  Sem betur fer var síðan tæplega tveggja tíma seinkun á vélinni þannig að þetta kom ekki að sök.  í staðinn var bara minni tími í Moskvu en það var bara betra því þar máttum við ekki einu sinni versla þar sem við vorum að fara til Armeníu.  Lárus, mjög samkvæmur sjálfum sér, ætlaði að kaupa segulstál á ísskápinn með mynd af Pútin, en var snyrtilega neitað um afgreiðslu.  Elita fór þá og kannaði málið og komst að því að í gildi er samningur á milli Armeníu og Rússlands um vörukaup á flugvöllum og mega því þeir sem eru að fara til Armeníu ekki versla á flugvöllum í Rússlandi.  Þeir eiga að skilja sinn gjaldeyri eftir í Armeníu !  Annars er Aeroflot hið fínasta flugfélag, reyndar ekki mjög stundvíst er ég búin að sjá,  sem gæti komið okkur í koll á leiðinni heim.  

Litháen kom okkur mjög á óvart, ekkert mál að ferðast þarna og landið hið fallegasta.  Allt mjög snyrtilegt og fólkið gestrisið og gott.  Það minnir reyndar heilmikið á Danmörku með sínum stóru  ökrum og skógarlundum.  Við gætum vel hugsað okkur að ferðast meira um Litháen og hin baltnesku löndin síðar, þá á bíl og rúlla jafnvel yfir til Leningrad í leiðinni.  Með gilda vegabréfsáritun í farteskinu :-)

Annars er ekki skrýtið þó að þjóðarsál Litháa sé lituð af þeim hörmungum sem landið hefur gengið í gegnum.  Margoft verið hernumið og/eða innlimað í önnur lönd.  Íbúarnir írekað stráfelldir af óvinum eða sendir í útlegt til Síberíu eins og mamma hennar Elitu þurfti að þola eftir að systkini hennar voru drepin af hermönnum Stalíns. 

Á myndinni eru Kákasus fjöllin í allri sinni dýrð.  Á flugvellinum hér í Yerevan upphófst heilmikil rekistefna í vegabréfsskoðuninni þegar við mættum  á svæðið.  Öll þrjú stoppuð en vegabréfin okkar þóttu mjög skrýtin.  Þessir höfðu ekki áður séð nýju íslesku vegabréfinu þannig að þeir vildu grandskoða þetta allt saman.  Fannt þetta afskaplega merkilegt ...

En hér í Yerevan tók tók á móti okkur glæný og flott flugstöð. Leigubíllinn beið eins og samið hafði verið um þannig að við vorum komin inná Hótel Republica á um klukkutíma. 

Fórum strax út að skoða umhverfið enda kvöldið yndislegt, 32 stiga hiti sem nauðsynlegt er að nýta vel þar sem hitinn yfir daginn fer í um 40 stig.  Við  röltum niður Republca torgið sem var mikið í fréttum nýlega vegna mótmæla sem þar voru í marga daga.  Núna var aftur á móti allt með kyrrum kjörum og hreint yndislegt að rölta þarna um og skoða mannlífið. 

Risastór gosbrunnur sem dansaði í takt við þekkt lög var ótrúlega skemmtilegur svo hér er ein mynd af honum. 


Hér í kvöld er hitinn um 32 gráður nokkuð notalegt bara.  Á morgun mun hann fara í ca. 40 segja allir, þá mun ég drepast, held ég.  Ástand mitt er fyrir ekkert sérstakt og eru flugnabitin mig lifandi að drepa, hef bólgnað svo svakalega að ég get varla gengið.  Óskemmilegt í svona ferð.  Nú bryð ég ofnæmistöflur í ólöglegu magni og reyni allt hvað ég get itl aðlosna við þennan ófögnuð.  Það er hægara sagt er gert.  


Thursday, July 2, 2015

María mey og flugnabitin...

Hér fer afar vel um okkur enda hótelið fantagott.  Reyndar pínulitið fyndið að hún Elita var hin fúlasta í morgunmatnum og skyldi ekkert í þessu lélega hóteli.   Það væri engin sturta og bara svona léleg handsturta í baðkarinu og ekki hægt að hengja hana á vegginn!  Okkur fannst þetta nú frekar undarlegt svo þegar við kíktum á herbergið hennar hafði hún ekki tekið eftir sturtuklefa sem var reyndar örlítið dulbúinn inn á baðherberginu.  Segir kannski mest um það hvað mannskapurinn er orðinn lúinn ...

Í morgun var ræst snemma því þetta var dagurinn í Vilnius.  Byrjuðum á að skoða Basilikuna í miðbænum sem er alveg einstaklega falleg.  Þar er fjöldi stórra málverka í röð sem sýna píslargöngu Krists, eins konar myndasería miðalda.  Afskaplega fallegt. 

Eftir það fórum við og gengum upp í Gediminas turninn en uppá hæðina sjálfa gengur reyndar "funicular".
Turninn og rústirnar í kring eru upphaflega Vilnius og byggðir á hæðunum hér í borginni þar sem auðvelt var að verjast móngólum og fleirum sem hingað réðust. 

Í turninum var afar áhugaverð sýning um sjálfstæðisbaráttu Litháa og auðvitað var þar minnst á Ísland.
En annars er það hreint með ólíkindum hvað allt er flott og vel gert hérna.  Söfn og merkir staðir virðast vaða í peningum.  Evrópusambandið á örugglega stóran heiður af því þó að heimamenn vilji nú alls ekki viðurkenna það. 


Gengum síðan miðbæinn og gamla bæinn þveran og endilangan.  Fórum í rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna og lútersk evangelísku kirkjuna og eins i afskaplega sérstaka kapellu í The gates of Dawn.  Það er pínulítil kapella yfir einu borgarhliðinu byggð 1503.   Þar er einstök Maríu mynd yfir altarinu sem talin er búa yfir lækningamætti en pílagrímar alls staðar að úr heiminum flykkjast hingað.   Ég er nú yfirleitt frekar hrifnæm en þessi staður var meira en sérstakur.  Að sjá fólkið sem komið var til að biðja fyrir sér og sínum.  Þarna var kona á hækjum sem varla gat gengið en hún staulaðist að altarinu og bað svo innilega að maður fann til með henni.  Svo allt í einu tóku allar kirkjuklukkurnar að hringja og þær eru nú ekki fáar, þá hafði konan örugglega beðið eftir að klukkan yrði 12 í þeirri von að auka áhrif bænanna. 
Það er óneitanlega sérstakt að verða vitni að trúarhita kaþólikkanna í samanburði við sinnuleysi okkar sem aðhyllumst hina lútersk evangelísku kirkju.  Við ráfum inn í okkar kirkju í mesta lagi einu sinni á ári og verðum ekki fyrir stórkostlegum hughrifum, það liggur við að ég öfundi kaþólska sem falla á hnén og bugta sig hvar sem þeir sjá Maríu mynd.  Það er eitthvað fallegt við þessa miklu trú á æðri máttarvöld þó að þessi sama trú hafi verið notuð til að pína og kúga lýðinn í þessum löndum öllum um aldir. 


Hér í Vilníus eru að mér skilst 24 kirkjur....  og, nei, ég er ekki búin að skoða þær allar :-)

Gamli bæjarhlutinn hér er afskaplega fallegur og margt að sjá.  Hluti hans er einskonar fríríki, Uzupis, sem á sína eigin stjórnarskrá.  Það plagg er afar sérstakt en um leið svo óendanlega gott og skemmtulegt.   Stjórnarskráin hefur verið þýdd á 10-12 tungumál og þar á meðal íslensku.  Það var gaman að því...


Síðdegis hittum vð Oleg og fórum í grasagarðinn sem er hér rétt fyrir utan borgina.  Mjög fallegur en greinilegt að allt hefur staðið hér í miklum blóma í maí.  Er búin að velja mér nokkrar rósategundir sem verða prófaðar í nýja gróðurhúsinu mínu sem vonandi kemst einhvern tíma upp...

Síðan var tekið forskot á sæluna á Armenskum veitingastað með Oleg og kærustunni hans.  Þetta er reyndar Lárus til hægri á myndinni.  Hann er að safna kjarki til að borða allar fjórar bökurnar sem eru fyrir framan hann.  Þetta var forrétturinn.  Ég er alveg steinhætt að skilja hvaða ófrægjugangur ríkir hérí matarmálum.  Skammtarnir eru svo svakalegir og réttirnir svo margir að þetta er ekki fyndið!
En svona réttur kostar reyndar um 2 EUR og aðalréttirnir 3 EUR svo verðið er allavega ekki að vefjast fyrir manni. 


Nú verður pakkað í kvöld og síðan allt gert sem hugsast getur til að slá á flugnabitin sem eru mig lifandi að drepa.  Þessi skógarpikknikk um daginn skilaði mér heilum 14 flugnabitum - öllum á ökklunum og ristinni,  Stökkbólgin og kláðinn er ansi svæsinn. Það verður gaman að fara í stóru flugferðina svona!  Hefði kannski átt að minnast á flugnabitin við Maríu mey en það hefði nú sjálfsagt varla verið við hæfi að ónáða hana með svona smáræði !

Annars er afar spennandi hvort við komumst yfirleitt til Armeníu því við erum ekki með vegabréfsáritun til Rússlands.  Datt það ekki til hugar enda var ég viss um að við værum transit farþegar.  En núna eru Litháarnir búnir að vera að hræða okkur með því að við þurfum að fara út og tékka okkur inn aftur.  Það getum við nefnilega ekki án vegabréfsáritunar.  Kannski endum við bara strand á flugvelli í Moskvu á morgun.  Ef allt virkar aftur á móti eins og það á að gera þá verður næsta færsla frá Yerevan í Armeníu...