Á þessari síðu verður haldið utan um ferðalag sumarsins 2015 til Litháen, Armeníu og Nagorno Karabakh.
Við erum þar á heimaslóðum Elítu og Grantasar, vinafólks okkar. Hún er frá Litháen en hann var frá Azerbaijan en flúði þaðan undan ofsóknum til Armeníu.
Við ætluðum alltaf að fara í þessa ferð fjögur saman en stundum tekur lífið aðra stefnu en maður vill. Grantas lést langt um aldur fram fyrir ári síðan.
EN loforð skal halda og nú erum við að fara og heimsækja landið hennar Elítu og fjölskylduna hans Grantasar. Grantas er örugglega með okkur í anda.
Kannski verðum við í tölvusambandi alla daga, kannski ekki. En ég ætla að reyna að setja á þessa síðu það helsta sem við sjáum og gerum. Ekki síst fyrir okkur sjálf síðar meir, því maður man aldrei neitt stundinni lengur :-)
Ef einhver hefur gaman af því að fylgjast með þá er það að sjálfsögðu bara skemmtilegra
Þetta er hann Grantas. Hann var skáksnillingur mikill og húmoristi sem elskaði að bjóða heim í mat og drekka vodka - í hófi að sjálfsögðu :-)
Svona rétt til að rifja upp síðustu ferð þá er hér ein mynd af okkur Lárusi úr ferðinni okkar 2013 til Slóveníu, Króatíu og Bosníu Herzegóvínu. Hér erum við í Sarajevo. Ferðasöguna úr þeirri frábæru ferð má finna á www.aldis.is - undir færslum júnímánaðar 2013.