Thursday, July 9, 2015

Karabakh að baki - Yerevan og heim ....


Nú erum við farin frá Karabakh og við tekur leiðin langa til Yerevan.  Það er ágætt að nota tímann á leiðinni til að skrifa þessa síðustu færslu því þó að umhverfið sé áhugavert þá dugar það ekki til að halda mér vakandi í þessa 7 tima sem aktsturinn yfir fjöllin á að taka. 

En það var heilmikil upplifun að koma til Karabakh.   Þar eins og víða annars staðar í hinni víðu veröld sér fólk litla framtíð í landinu sínu.  Samkvæmt opinberum tölum eru íbúar skráðir rúmlega 300 þúsund í landinu.  En allir sem við töluðum við voru á þeirri skoðun að í raun væru þeir ekki nema 200 þúsund þar sem svo margir væru farnir annað. Þessir brottfluttu virðast síðan hafa miklar taugar til landsins og friða samviskuna með gegndarlausum fjárframlögum til hinna ýmsu verkefna, gáfulegra sem ógáfulegra.  Hér segja menn að um 50.000 manns séu í hernum í Karabakh sem ég á líka bágt með að trúa.  Það er ekki langt síðan að hér var háð blóðug styrjöld og allar fjölskyldur hafa misst einhvern sér nákominn, kirkjugarðarnir bera þess líka merki.  Það er gríðrlega kostnaðarsamt fyrir samfélagið að þurfa að lagfæra og endubyggja það sem hernaðurinn hefur eyðilegt.  En sagan hefur kennt þessu fólki að hér er sjaldan friður og flestir eru sannfærðir um að það brjótist út bardagar hér aftur enda langi öllum í hið afar fallega og frjósama Karabakh.  Í Karabakh eru allir tilbúnir til að verja landið með öllum tiltækum ráðum og njóta þeir þar stuðnings brottfluttra karabakhs búa.

Það hversu margir hafa verið í hernum og tekið þátt í bardögum gerir líka að verkum að ansi stutt er í villimanninn finnst mér og í Karabakh ríkir frumskógarlögmálið.  Samt er mjög friðsælt og gott að vera hér, engu er stolið, aldrei brotist inn og konur eru algjörlega óhultar, hvar og hvenær sem er.   Enda segir Johnny að ef einhver gerir eitthvað svoleiðis, nú  þá er hann bara skotinn, strax!  Ekki mjög flókið.  

Um leið og við fórum yfir landamæri Armeníu þá setti bílstjórinn í fluggírinn og tók upp þetta undarlega aksturslag að vera út um allt a veginum og keyra alveg eins og óður maður.   Hann segist hafa keypt sér sérstakar númeraplötur sem kosta um 18.000 dollara og með þessum plötum má hann keyra alveg eins og honum lystir og enginn má stöðva hann,  lögreglan vinkar honum framhjá og aðrir bílar spítast ú í kant eins og flugur þegar við brunum eftir miðlínu eða einfaldlega á röngum vegarhelmingi.  Á meðan reykir bílstjórinn eins og skorsteinn og malar í símann allan tímann, á um 140 km hraða þegar mest var.  Ég hef tamið mér aðdáunarverða yfirvegun og er því eiginlega alveg sama þó að við næstum því tökumst á loft á þessum holóttu og kræklóttu vegum.   Enda þýðir ekki að hafa skoðun hér.   Mér finnst reyndar furðulegast hvernig honum dettur til hugar að fara svona með nýjan Land Cruiser.  Hann mun ekki endast lengi með þessu áframhaldi!    Síðan er hann með Armenu músík á hæsta allan tímann - hún er mig lifandi að drepa..  Ef ég heyri einu sinni enn i duduk flautunni þá tryllist ég .....

Á leiðinni keyrðum við fram hjá litlu þori þar sem mikið var af hálfbyggðum og/eða tómum húsum,  Þesi hús voru ætluð flótttamönum frá Sýrlandi sem neituðu svo að vera á svona afskekktum stað.  Það hefur greinilega átt að reka mér markvissa byggðastengu og stuðla að fólksfjölgun í sveitinni.  En meira að segja stríðshrjáðir flóttamenn láta ekki bjóða sér það að vera plantað einhvers staðar í óbýggðum með enga mguleika til afla sér líllfsviðurværis. 

Eftir að hafa verið hér er ég svo innilega þakklát fyrir góða almenna menntun okkar  Íslendinga.  Hér veit fólk yfirleitt ekki neitt um neitt.  Hvað landið er stórt, hversu margir búa hér, hverjir megin atvinnuvegir, hvað er markvert að sjá og annað í þeim dúr.. Starfsfólkið í móttökunni  á hótelinu i Stepanakert vissi ekki einu sinni hvað snéri upp eða niður á korti af miðbænum og gat ekki merkt hótelið inná og hvað þá miðbæinn.

Svo til enginn getur tjáð sig á ensku en rússneskan er að virka vel. Aumingja Elita er búin að túlka og túlka og hefur án vafa bætt sig helling í islensku á þessum tima.  Í Karabakh sáum við einu sinni "ljósa" útlendinga en það var í ráðuneytinu þar sem við skráðum okkur inn í landið.  Annars voru fáir vestrænir túristar í Karabakh!  Aftur á móti er nokkuð af ferðamönnum frá Rússlandi og Georgíu og svo auðvitað brottfluttir sem eru þorri þeirra sem heimsækja landið. 

Annars komumst við heilu og höldnu til Yerevan og auðvitað á miklu skemmri tíma en við reiknuðum með í upphafi  - eðlilega - miðað við aksturslagið. 

Við Elita þurftum að fara  beint á spítalann um leið og við komum til Yerevan til a ganga frá pappírum og útskrifast formlega.  Þar var okkur, eins og alltaf, tekið með kostum og kynjum.  Fólikið er klárt og gott og vill allt fyrir mann gera en aðstaðan er vægast sagt bágborin og þau viðurkenna það alveg.  Þarna vantar líka stórkostlega uppá þrif og almenna umhirðu. Það gerir nú enginn meira en hann þarf virðist vera.  Þegar við komum hittum við fyrir yfirhjúkrunarkonuna sem lá í einu af sjúkrarúmunum og malaði í símann.  Hún hætti því ekkert þó að við kæmum okkur fyrir á rúminu við hliðina.  Það er nú sem ég sæji þetta gerast heima.  Unnur Þormóðs bara liggjandi í sjúkrarúmi, blaðrandi við ættingjana í óratíma fyrir framan sjúklingana ! ! ! 

En litli ofnæmlslæknirinn minn mætti svo á svæðið og var ánægð með sjúklinginn.  Sendi mig heim með skýrslur á rússnesku sem ég á að koma til minna lækna heima.  Það verður skemmtilegt heimsókn. 

Ráfuðum um Yerevan það sem eftir lifði dags.  Heimsóttum Vernissage markaðinn aftur.  Fórum út að borða á skemmtilegum veitingastað sem tileinkaður er einni alvinsælustu bíómynd Rússa "Góða ferð - herramaður"  eða eitthvað í þá áttina. Þar fengum við okkur hacapuri í síðasta sinn og hinar ómissandi kryddjurtir, ásamt tablulleh sem er ótrúega gómsætt líka. 

Hitinn í gærdag fór yfir 40 gráður í borginni svo við vorum gjörsamlega að bráðna.  Um kvöldið lækkaði hann í svona 32-35 sem var allt allt annað.  En annars hefur hitinn ekki angrað mig jafn mikið og ég átti von á.  Inn í Karrabakh var aðeins svalara og betra loft en hér er svo þurrt að maður finnur ekki eins fyrir hitanum og ef það væri meiri raki i lofti. 

Kvöddum Yerevan með því að hanga lengi á Republica torginu, dáðumst að mannlífinu og syngjandi gosbrunnunum sem þarna eru og vorum öll staðráðin í því að koma einhvern tíma aftur. 


P.S.
Í fluginu frá Yerevan í morgun blasti Ararat við í allri sinni dýrð. Með sína rúmu  5.100 metra gnæfir það yfr borgina og svæðin hér í kring.  Tignarleg táknmynd Armeniu....



Ararat í mistrinu í fjarska á leiðinni til Yerevan.  Það grillti allavega í það  :)