En í gær höfðu Lalli og Elita kynnst ungum leigubílstjóra sem var svo óskaplega almennilegur að við pöntuðum hann allan daginn í dag. Hann keyrði með okkur að öllum helstu kennileitum borgarinnar og miklu meira en það.
Hér eru við til dæmis The Cascade sem er frábært mannvirki, safn bæði inni og úti. Í dag mánudag var lokað fyrir safnið innandyra og rúllustigana upp á topp. Við gengum í staðinn upp allar 572 tröppurnar í 40 stiga hitanum sem hér var í dag. Þetta eru 5 pallar svo hægt var að anda á milli. Ýmsir nútímalegir skúlptúrar eru á hverjum palli sem gaman er að skoða.
Efst hafa þeir reyndar ekki enn lokið við mannvirkið svo þar varð að klöngrast á vinnupöllum en kom ekki að sök. Verð reyndar að geta þess í sambandi við hitann sem ég var búin að kvíða þvílíkt fyrir að hann er ekki beint óþægilegur. Hér er svo þurrt að það er ólíku saman að jafna eða í strandbæjum með sama hitastigi þar sem hitinn verður óbærilegur og maður jafnvel svitnar í sturtunni. Þannig er það alls ekki hér. Funheitt auðvitað en það er leikandi hægt að vera úti við og labba helling :-)
Rétt við The Cascade er minnismerkið Mother of Armenia sem gnæfir yfir borgina eins og Jesús í Ríó. Glæsilegt en Lárus var ekki síður hrifinn af öllum stríðstólunum sem þarna var stillt upp.
Hér er tengdafaðirinn ásamt eiginkonu bílstjórans en þau leystu okkur út með blómum og þessum stóra poka af ávöxtum í nesti. Skemmtileg upplifun.
Fórum þar næst i þekktustu koníaksverksmiðju Armena, Ararat. Þar var boðið upp á líflega kynningu og sýningarferð um verksmiðjuna og svo auðvitað smakk á afurðunum í lokin. Flottasti pakkinn í boði bauð uppá 2 tegundir af 40 ára koníaki og eina af 50 ára. Það er reyndar sama vín og Winston Churchill lét senda sér í kassavís eftir Yalta ráðstefnuna þar sem hann heillaðist svona gjörsamlega. Maður finnur alveg muninn á ungu og eldra koníaki þó maður kannski sturti ekki í sig 300 flöskum á ári eins og Churchill...
Já og ég veit vel að þetta er í raun brandý þar sem eingöngu drykkir sem framleiddir eru í cognac héraðinu mega nota það heiti. Enginn annar munur er á framleiðslunni enda Ararat að fullu í eigu Frakka í dag. Hér erum við Lárus svo með Churchill koníakið...
Ég bara varð að komast á Vernissage markaðinn þar sem Lárus og Elita skemmtu sér svo vel í gær og því var brunað aftur í bæinn. Markaðurinn er gríðarstór og þar fæst allt milli himins og jarðar, teppi, skartgripir með eðalsteinum, einstakt handverk, antík vörur af öllu tagi svo það er einstakt að ráfa þarna um og skoða dýrðina. Til hliðar er annar markaður mest með föt og heimilisvöru sem ekki var síður gaman að skoða. Aðallega til að dáðst að verðlaginu ...
Fórum síðan áleiðis í bæ utan við Yerevan sem heitir Garni. Keyrðum þar algjöran óveg lengst niður í gil til að skoða þetta stuðlaberg sem er nú með því flottasta sem ég hef séð. Vegurinn reyndar algjör óvegur og það var ekki laust við að færi um mig þegar við vorum komin út á ystu nöf við að mæta bíl og vatnið flæddi um veginn enda gríðarleg vatnsleiðsla í honum miðjum, afar lítið niðurgrafin.
Það er nú heldur ekki traustvekjandi að hér eru ekki öruggisbelti í aftursætum bifreiða. Þau eru hreinlega tekin úr af því að það er bara vesen að hafa þau í, skilst mér. Manni líður nú ekkert sérstaklega vel skröltandi laus í aftursætinu á hraðbrautunum eða á svona sveitavegum.
En þetta er allt i lagi því Karen er svo góður bílstjóri! Yeah right ! ! !Í staðinn fyrir að borða þær beint úr sátunni með salti og vodka þá setur maður fetaost í brauð eða enn betra í lavash brauð sem svipar til tortilla raðar svo kryddjurtunum yfir og "voila"....
Södd og sæl héldum við heim á leið eftir óveginum, ekki í beltum og nú voru aðrir bílstjórar orðnir fullir. Þá er einmitt svo gott að Karen er góður bílstjóri - hann er nefnilega alveg einn á götunum, eða þannig!
Fórum að lokum að skoða hofið í Garni sem byggt var á fyrri hluta fyrstu aldar eða um 30 e.Krist. Það er tileinkað sólarguðnum Mahr og er byggt í grískum stíl. Okkar ágæti bílstjóri hafði alveg rétt fyrir sér þegar hann sagði að það væri miklu skemmtilegra að skoða það í myrki. Það sést best á myndinni hvað það er einstaklega fallegt.