Tuesday, July 7, 2015

Hálshöggnar hænur og hjálparstarf

Mikið rosalega svakalega er ég orðin þreytt á þessum bitum.  Skil ekki hvað þetta er.  Er búin að vera næstum því innlögð á spítala, með lyfjagjöf í æð í þrjá daga, töflur og krem, fyrir nú utan að hafa fengið heimsókn frá vígalegum hjúkrunarfræðingi hingað í Karabakh sem gefur mér sprautur í óæðri endann sem er ekki mjög þægilegt.   Er í sokkum og fer ekki út í gras nema tilneydd.... Hvernig í veraldarsögunni get ég því verið komin með 7 leiðindabit á fæturna eftir daginn í dag. Þetta setur óneitanlega dempara á gleðina verð ég að segja. 

En það hjálpar kannski ekki þegar maður kemur sér í svona aðstæður eins og sjást hér á myndunum.  

Þetta er hádegisverðarstaður dagsins.  Hið óimissandi grillaða grænmeti og kjöt á leiðinni, búið að hálshöggva eina hænu og grilla handa okkur og hinar biðu á dauðadeildinni þangað til við vorum byrjuðað borða, þá voru þær skornar á háls svona næstum því við matborðið. 

Hér er engin Elsa frá Heilbrigðiseftiilitinu og gæðastaðlar eru ekki til.  Þetta er semsagt veitingastaðurinn:


Og eldunaraðstaðan...


Svona var ástandið á þeim gamla eftir matinn en veitingakoan var við öllu búin.  Lárus var líka mældur ! 


Þetta er hún Malene sem er mikil vinkona mín.  Hún er barnabarn Rudik og finnst óskpalega gaman að tala ensku, ólíkt eiginlega öllum öðrum hér um slóðir. 
Verð reyndar að viðurkenna að mér væri sama þó ég sæi ekki schaslick í þónokkurn tíma núna.  Það er alltaf og alls staðar það sama í matinn og þetta er svo alltof, alltof mikið alltaf...  Svo er það tekið sem helber dónaskapur ef maður smakkar ekki allt og drekkur vodka með í ómældu magni. 

Reyndar er þessi vodkadýrkun alveg gengin út í öfgar.  Hér var hellt yfir mig vodka í dag til að verjast flugunum og vodka notað til að sótthreinsa fyrir sprauturnar.  Vodka er notað til að sótthreinsa á sér hendurnar og svo á það að vera svo gott með morgunmatnum, koma meltingunni af stað, með hádegismatnum eykur það manni hreysti og lífslíkur og með kvöldmatunum bætir það meltinguna.  Merkilegt að fólkið hér skuli ekki vera unglegra og heilsuhraustara miðað við hvað það innbyrðir af þessum drykk. 

Við vorum sótt á hótelið eldsnemma til að fara í morgunmat með stórfjölskyldunn.  Það tók tímann sinn enda ókjör af mat sem þarf að innbyrða.   Eftir það var lagt af stað í ferð um Karabakh, ætla að hafa sem fæst orð um aksturslagið enda var sá gamli búinn að drekka þónokkuð af vodka áður en hann settist undir stýri, með of marga í bílnum og eingöngu lafhræddir Íslendingar í öryggisbeltum. 

Kirkjur eru helstu kennileyti hverrar sveitar og því þarf að heimsækja þær margar.  Það var ekki brugðið  út frá þeirri venju í dag.   Fórum síðan á stað sem heitir Gandazar sem íbúar hér eru afar stoltir af en mér fannst harla furðulegur.  Forstjóri General Motors er Armeni, vellauðugur, og hann ákvað að koma upp skemmtigarði í bandarískum stíl lengst inní skógi  hér í Karabakh. Hann hefur byggt helling af byggingum í Las Vegas stíl en síðan er viðhaldið og umhirðan öll skelfileg. Þarna var m.a. dýragarður með villtum dýrum hér úr skógunum, búrin skelfileg, lítil og skítug og dýrin flest hver geðbiluð sýndist mér.  Öryggið ekkert og starfsmennirnir í öngum sínum af hræðslu við villidýrin sem þarna voru. Skógarbirnir og ljón eru nú engin lömb að leika sér við...   Alveg furðulegur staður en íbúarnir hér eru ægilega stoltir af þessari uppbyggingu.  Held að forstjórinn ætti nú að fara að líta við á staðnum sínum!

Rétt hjá Gandazar var þessi veggur.  Hann er búinn til úr bílnúmeraplötum Azeranna eftir að þeir höfðu verið reknir úr landi.  Um 1 og hálf milljón íbúa Karabakh voru Azerar en í stríðinu voru opnaðar leiðir fyrir þetta fólk til að yfirgefa heimili sín og halda til Azerbaijan.  Þar hefst það enn við í flóttamannabúðum við skelfilegar aðstæður.  Spilling í þessum löndum er alveg hreint ótrúleg og íbúar taka henni sem sjálfsögðum hlut.  Hér eru til dæmis hraðamyndavélar meðfram vegum og sektirnar himinháar.  Vélarnar eru í eigu sonar forsetans sem fær tekjurnar í eigin vasa.  Á meðan eru allir innviðir í molum.  


Fórum  til borgarinnar Shushi sem er önnur stærsta borgin hér og gnæfir hér yfir höfuðborginni  Þar höfðust Azerar við í stríðinu og skutu stanslaust á Stephanenkerth í stríðinu.  Í staðinn var þessi borg svo til brennd til grunna að stríði loknu og Azerarnir hraktir í burtu.  Þarna var allt meira og minna enn í rúst þrátt fyrir að uppbygging sé í fullum gangi.