Vöknuðum eins og okkur hafði verið sagt að gera fyrir átta. Ekkert bólaði á ferðafélögunum fyrr en um hálfum öðrum tíma síðar og þá með hástemmdum yfirlýsingum um bilaðar vekjaraklukkur og annað vesen. Byrjuðum samt daginn á markaðnum þar sem við röltum um og skoðuðum þar allt á milli himins og jarðar. Mesta athygli vöktu þó sumarblómin sem greinilega höfðu fengið all vígalega hormónameðferð. Ég vil samt geta keypt svona hengi petúníur heima, fjögur stykki af þessu risavöxnu plöntum og það er nóg fyrir sumarið... Spurning um að kanna hvers vegna þessar eru svona stórar ? ? ?
Lagt af stað til Palanga, eðli máls samkvæmt allt of seint. Palanga er strandbær 80 km héðan. Þessi bær er hreint meiriháttar, strandbær af bestu gerð en ekki of margir ferðamenn. Þvílíkar strendur og sandurinn hreinlega eins og hveiti, unaður ! Þarna er bryggja lengst út í sjó sem við gengum endilanga en strandmenningin er þarna ekki síðri en í miðjarðarhafslöndunum. Ég missti mig alveg í því að versla raf. En vinna við rafið er mikill iðnaður á þessum sl. Við Elita fórum á safn um raf á meðan að restin af hópnum fór á einhvern ógurlegan veitingastað. Ég tel mig aftur á móti heppnari, ífyrsta lagi vegna þess að ég hef þegar borðað algjörlega yfir mig í þessari ferð og í öðru lagi vegna þess að raf safnið var í stórkostlegri höll með yndislegum hallargarði. Auk þess var þetta hin besta hreyfing enda safnið aðeins úr leið.
Í Palanga ákváðum við að koma aftur til Litháen. Þetta land er ótrúlega vanmetið en hefur svo ótrúlega margt upp á að bjóða. Svo ekki sé nú minnst á verðlagið sem er náttúrulega bara hlægilegt. Til dæmis kostaði glæsilegur hádegisverður fyrir fjóra með bjór 40 EUR eða um 6.000 krónur. Ég keypti í gær líter af vodka, freyðivín og stærðarinnar rjómatertu sem við færðum Rema vinkonu Elitu að gjöf og þetta kostaði 20 EUR. Það er næstum ekki hægt að eyða peningum hér í þessu landi !
Skoðuðum síðan miðbæ Telsij. Þar sjást nú kostir Evrópusambandsins með einstæðum hætti. "Mjög góður bæjarstjóri", er búinn að rífa upp útlit bæjarins með dyggri aðstoð Evrópusambandsins og Europa money! Ofan við vatnið er komið heilmikið svið utandyra með áhorfendabekkjum fyrir hundruðir. Frá sviðinu er brú út að vatninu og frá brúnni lyfta niður að vatnsbakkanum, fyrir fatlaða. Hellulagður gangstígur er hringinn í kringum vatnið og kyrrðar hús á tveimur öðrum stöðum á hringnum. Þetta hefur kostað hundruðir milljóna og ekki séns að þetta sveitarfélag hafi haft efni á því. En þetta er gríðarlega metnaðarfull og glæsileg framkvæmd.
Komum heim síðdegis og þá fór Elita að undirbúa veisu kvöldsins. Grillpartý á yndislegum stað við vatn út í skógi fyrir vini sína og okkur. Þetta var alveg ótrúlega skemmtilegt. Mikið hlegið, mikið skálað og mikið fjör. Heilmikið sungið, það er nú meira hvað Ríðum, ríðum... gerir alltaf mikla lukku erlendis :-)
Vil síðan geta þess að við vorum 11 í veislunni en það voru elduð 10 kg af kjöti á grillinu auk allra salatanna, meðlætis, osta og annars. Þarf líklega ekki að segja ykkur hvernig ástandið er á manni í kvöld, enn og aftur ....
Á leiðinni heim var okkur boðið til Danute einnar vinkonu Elitu. Mjög skemmtileg kona sem leysti okkur út með rafi sem ég á að drekka seyðið af. Verð af því bæði ungleg og hraust - get ekki beðið eftir að prófa :-)
Mögulega verð ég loksins búin að læra að pósta myndum með þægilegum hætti þegar ég verð komin heim, þið bíðið bara róleg eftir því :-)