Monday, July 6, 2015

Skrifað á langri ferð til Karabakh...

Í upphafi þessa langa pistils vil ég minna á að þetta blogg er ekki síst skrifað til að við sjálf getum munað hvað við gerðum í þessari ferð.  Þeir sem ekki nenna að lesa langlokur hætta bara hér ;-)

--------------
Bílstjórinn var sendur af frændanum i Karabakh á flottasta bílnum í bænum. nýlegum Land Cruiser Prado. Hann keyrir aftur á móti eins og brjálæðingur, hér í Armeníu gilda einhverjar umferðarreglur en sú helsta sýnist mér vera sú að allir aðrir víkja fyrir jeppanum með flotta númerinu þegar hann brunar á miðjum veginum milli bíla eða hægra eða vinstra megin framúr öllu því sem á vegi hans verður.





Fyrst var keyrt  eftir veginum þar sem hvað styðst er yfir  til Azerbaijan.  Þar var um 2 metra hár varnargarður sem byggður hafði verið hægra megin við veginn til að skýla bílunum fyrir byssukúlum Azeranna, hann sést á efri myndinni.  Á þeirri neðri sjást hæðir Azerbaijan þaðan sem skotið var stanslaust á þennan veg.  Við  sáum  greinilega skotbyrgin beggja vegna við veginn sem var hálf nöturlegt..  Héðan er líka örstutt yfir til Tyrklands og ekki síður til Íran enda mættum við mörgum á írönskum númeraplötum.  Þetta er mikið ævintýri og hálf óraunverulegt.  Þegar maður horfir yfir hrjóstrugt landið og öll þessi litlu þorp sem hér eru á víð og dreif þá er erfitt á ímynda sér á hverju fólkið lifir.  Okkur var aftur á móti sagt að hér vinna flestir karlar í Rússlandi en konurnar hugsa um börn og bú og fá peninga senda frá eiginmanninum. 
Á nokkrum stöðum við veginn mættum við Jesítum á hrossum sem ráku með sér  hjarðir af nautgripum, þá reka þeir upp í fjöllin og þegar nautin hafa náð sláturstærð  koma þeir niður og selja Armenum skepnunar til slátrunar.  Þessi þjóðflokkur hefur verið hundeltur af ISIS að undanförnu og því þónokkuð í fréttum.  Því þótti mér gaman að sjá þá hér í svona góðu umhverfi.   Annars er þessi leið lengi vel svolítið eins og Húnavatnssýslan!  Stórar sléttur og  grónir gilskorningar - ef frá eru talin Kákasusfjöllin í fjarska sem hafa enga skýrskotun til Húnavatnssýslunnar.  Það kólnaði hratt eftir því sem ofar dró og efst i fjöllunum sem við fórum yfir fór hitinn í 24 gráður sem var ólíkt þægilegra en 40 gráðurnar.    
Hér er umferðarmenning með alversta móti, þó þeir segi sjálfir afar stoltir að þetta sé nú ólikt betra en hinu megin við hólinn í Íran.  Öryggisbelti eru í bílnum sem bílstjórinn okkar hefur mikið fyrir því að nota eingöngu þegar hann heldur að löggan sjái til.  Í öðru farþegasætinu aftur í ekkert öryggisbelti.  Okkur er tjáð að fólk verði að athlægi í Karabakh ef það notar örygisbelti.  Í hinu orðinu segir hann okkur síðan dapuirlegar sögur af unga fólkinu hér  sem fer alltof ungt að keyra, keyrir yfireitt ölvað  og drepur sig í bílslysum umvörpum.   Fáir virðast tengja saman orsök og afleiðingu hér.   
Við keyrðum hér fram á lítinn vörubíl sem hafði misst helling af korni aftan af pallinum og heil fjölskylda var því að skófla því upp í fötur.  En nei það var nú víst ekki aldeilis raunin.  Þetta var víst ekki óhapp, heldur er alvanalegt að fólk noti veginn til að þurrka kornið sitt í sólinni yfir daginn ! !  ! Er nema von að þessi ökuferð taki á.   Veguirnn liggur hér í miklum hlykkjum, þegar farið er yfir landamærin til Karabakh eru fjöllin framundan ansi  ógnvænleg og maður vonar að vegurinn liggi ekki þar yfir þau  ! !  !
Goris er síðasta borgin í Armeníu áður en við förum inn til Karabakh sem er í dalverpi í hæðunum hér fyrir ofan.  Nú er sólin horfin á bakvið  fjöllin og farið að rökkva í Kákasusfjöllunum. Nú höfum viið klukkutíma til að koma okkur til Stephanakert í bjötu því myrkrið  hellist hér yfir á augabragði og ekki langar mig til að vera á þessum vegi í myrkri.  Reyndar hef ég orðið tröllatrú  á ökumanninum úr því erum þó komin þetta langt án óhappa.  Nú vorum við að fara yfir landamærastöðina milli Armeníu  og Karabakh.  Þar vöktu vegabréfin okkar heilmikla athygli eins og alltaf.   Þarna vourm við skráð inn í landið en á morgun þurfum við að fara í Innanríkisráðuneytið og tilkynna okkur inn með formlegum hætti.

Það er gaman að sjá hvernig gróður og umhverfi breytist eftir því sem Armenía fjarlægist og við komum lengra inn í Karabakh.  Hér taka við þéttir skógar upp um allar hlíðar og blómailmur í loftinu.  Greni í blandi við aðrar trjátegundir er hér út um allt á meðan að Armenía er aftur á  móti eitt stórt sólbakað grjótstykki. 

Bílstjórinn heldur áfram að hrella okkur og gerir ekki annað en að sýna okkur staði þar sem bílar hafa farið út af og fólk látið lífið.  Hér í fjöllunum hrapar að meðaltali einn bíll á dag á veturna og fjöldi fólks lætur lílfð.  Enda allir fullir að keyra og enginn að fara eftir umferðarreglunum og vegurinn er aldrei mokaður.  Hvað fólkið er að þvælast við þessar aðstæður er alveg ofvaxið mínum skilningi en auðvitað þarf að sækja læknisþjónustu og ýmsilegt annað sem gerir bílferðir nauðsynlegar. 

Nú er farið að rökkva all verulega en við sjáum ennþá ágætlega til.  Mér skilst að það styttist í áfangastað enda erum við búin að keyra núna í rétt tæpa 7 tíma - 350 km reyndar með góðum stoppum á leiðinni. Rudii frændi Grantasar er búinn að sjá til þess að við erum vel haldin og hann hefur pantað á undan okkur alla leiðina.  Við borðuðum til dæmis frábæran mat á flottum veitingastað þar sem ´básar löfðu yfir á sem virðist vera afar vinælt arkitektúr hér um slóðir.  Mjög fallegur staður og gómsætur matur eins og alltaf.  Ég ar afar þakklát því að bílstjórinn sagðist ekki geta drukkið vegna einhvers líkamslegs ágalla og þar mað var einu áhyggjuefninu færra með í för. 


Vil endilega benda einhleypum vinkonum mínum á það að blá augu og ljóst hár virðist vera ávísun á athygli hér í landi, skiptir þá aldur viðkomandi greinilega engu máli.  Það var gaman að sjá að ástleytinn bílstjórinn var farinn að fara í taugarnar á Lárusi sem alvarlega var farinn að íhuga að losa sig við frúna upp í ferðakostnaðinn   :-)




Þegar við komum til Stepanekert var orðið myrkt,  okkur var skutlað að litlum veitingastað niður við á.  Þar beið heill hópur af karlmönnum, ættingar Grantasar.  Var okkur tekið með kostum og kynjum matur í hraukum beið, vodka eins og enginn hafði gott af og gómsætir ávextir beint af trjánum í garðinum.  Höfuð ættarinnar heitir Rudik og hann stýrir greinilega ýmsu hér í borg.  Þrátt fyrir ótölulegan fjölda vodka glasa vinkaði hann afar kumpánlega úr cadillac jeppanum sínum til allra lögreglumanna sem við mættum á leiðinni á hótelið glæsilega þar sem við Lárus gistum í kvöld.  Elita aftur á móti er með ættingjum á hóteli við ána.  Þarna græddum við helling á þessu furðulega bitofnæmi sem mér hefur tekist að krækja mér í.  Ég hefði verið étin upp til agna í loftkælingarlausu gistiheimili á árbakkanum.
Verðum sótt eldsnemma í fyrramálið og þá tekur við enn einn viðburðarríkur dagur í þessari ferð.  

Þarf reyndar einnig að finna hjúkrunarkonu eða lækni sem getur sprautað mig tvisvar á morgun með lyfjunum sem ég fékk í Yerevan.  Vinkona mína læknirinn  hélt yfir mér langa og örugglega mergjaða ræðu á rússnesku í minni daglegu heimsókn á spítalann  um allt það sem ég má ekki gera hér í Karabakh.   Hún heimtar líka að ég sé alltaf í sokkum á meðan að sárin á fótunum eru að gróa.  Það er reyndar skynsamlegt þó að ég taki út fyrir útlitið...    Öðrum ráðleggingum er erfiðara að fylgja, ég sé nú til dæmis ekki alveg hvernig ég á að forðast öll mannétandi kvikindi hér þar sem allt er á kafi í skógi! Í skógunum hér leynast birnir, helilngur af úlfum, sjakalar, slöngur af öllum tegundum og býflugur sem éta af manni hold, fyrir nú utan allar bitflugurnar!

Beðið eftir bílnum til Karabakh.

Dagleg heimsókn mín á spítalann var ansi löng í dag og ég hef grun um að það hafi verið vegna þess að beðið var eftir nemum sem komu svo í tvígang á stofuna til mín af skoða þetta fyrirbrigði sem hér hefur skolað á land.  Var send með sprautum og lyf  "í nesti" og á að mæta aftur um leið og ég kem frá karabakh og þá fæ ég skýrlsurnar og niðurstöður úr öllum þessum prófum sem búið er að gera hér.  Reyndar á rússnesku svo það er spurning hvað ég á að gera við þetta heima ....  Læt Ómar heimilslækni um að svita yfir því :-)

En við höfðum pantað Karen og hann keyrði með okkur út um allt í morgun.  Þessi ungi maður er hreint frábær og við hefðum ekki séð nema brot að því sem við erum búin að gera ef við hefðum ekki hitt hann.  Í morgun fóru við í Ejtsemin sem er ein elsta dómkirkja kristninnar. Ótrúlega falleg og saga hennar er engu lík.  Byggð um 500 e.Krist.  Fórum líka í "litla Vaticanið" en þar eru höfuðstöðvar Armensku kirkjunnar.  Mjög gaman að koma á báða þessa staði.  
-------
Það er alveg sama hvar við höfum drepið niður fæti á ferðalögum okkar undanfarin ár, allir þekkja Ísland og þrá að koma í heimsókn.  Strákurinn í lobbýinu á hótelinu okkar hér í Yerevan á vin sem er svo heillaður af Sigurrós að hann er búinn að leggja á sig að læra íslensku til að geta þýtt textana þeirra.  Læknirinn minn á sjúkrahúsinu sem ég hitti daglega er orðin mikil vinkona okkar og hún ætlar að heimsækja okkur til Íslands með fjölskyldunni næst þegar hún á almennilegt frí, sem er víst reyndar ekki oft.  Karen, leigubílstjórinn sem við höfum eingöngu verið með, mun sjálfsagt aldrei hafa efni á Íslandsferð en hann er veikur að koma í heimsókn rétt eins og gullfallega konan hans sem á afmæli í dag.   Þau vilja ólm bjóða okkur heim í afmælisveislu á fimmtudagskvöldið þegar við komum frá Karabakh. Við erum að sjálfsögðu búin að þiggja það.   Elskulegheitin sem við njótum hér eru engu lík og það er svo auðvelt að falla fyrir þessu landi og íbúum þess.   Ég dreifi hér á báða bóga íslensku brennivíni og fjallagrasavíni, íslensku lava salti, bókum og segulstálum og öllum finnst þetta mjög merkilegt.  Hefði átt að koma með meira af bókum reyndar, sé ég núna.

En eftir örfáar mínútur verðum við sótt á hótelið og við tekur akstur inn til Karabakh, þar fáum við áritun á landamærunum sem dugar að borga fyrir.  Hittum norskan strák í gær sem ráðlagði okkur að láta ekki stimpla vegabréfið heldur að fá stimpilinn á sér blað, því þónokkur ríki hleypa ekki inn í lönd sín fólki sem hefur ferðast til Karabakh.  Við myndum til dæmis ekki komast til Azerbaijan með þannig ferðasögu.