Thursday, July 2, 2015

María mey og flugnabitin...

Hér fer afar vel um okkur enda hótelið fantagott.  Reyndar pínulitið fyndið að hún Elita var hin fúlasta í morgunmatnum og skyldi ekkert í þessu lélega hóteli.   Það væri engin sturta og bara svona léleg handsturta í baðkarinu og ekki hægt að hengja hana á vegginn!  Okkur fannst þetta nú frekar undarlegt svo þegar við kíktum á herbergið hennar hafði hún ekki tekið eftir sturtuklefa sem var reyndar örlítið dulbúinn inn á baðherberginu.  Segir kannski mest um það hvað mannskapurinn er orðinn lúinn ...

Í morgun var ræst snemma því þetta var dagurinn í Vilnius.  Byrjuðum á að skoða Basilikuna í miðbænum sem er alveg einstaklega falleg.  Þar er fjöldi stórra málverka í röð sem sýna píslargöngu Krists, eins konar myndasería miðalda.  Afskaplega fallegt. 

Eftir það fórum við og gengum upp í Gediminas turninn en uppá hæðina sjálfa gengur reyndar "funicular".
Turninn og rústirnar í kring eru upphaflega Vilnius og byggðir á hæðunum hér í borginni þar sem auðvelt var að verjast móngólum og fleirum sem hingað réðust. 

Í turninum var afar áhugaverð sýning um sjálfstæðisbaráttu Litháa og auðvitað var þar minnst á Ísland.
En annars er það hreint með ólíkindum hvað allt er flott og vel gert hérna.  Söfn og merkir staðir virðast vaða í peningum.  Evrópusambandið á örugglega stóran heiður af því þó að heimamenn vilji nú alls ekki viðurkenna það. 


Gengum síðan miðbæinn og gamla bæinn þveran og endilangan.  Fórum í rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna og lútersk evangelísku kirkjuna og eins i afskaplega sérstaka kapellu í The gates of Dawn.  Það er pínulítil kapella yfir einu borgarhliðinu byggð 1503.   Þar er einstök Maríu mynd yfir altarinu sem talin er búa yfir lækningamætti en pílagrímar alls staðar að úr heiminum flykkjast hingað.   Ég er nú yfirleitt frekar hrifnæm en þessi staður var meira en sérstakur.  Að sjá fólkið sem komið var til að biðja fyrir sér og sínum.  Þarna var kona á hækjum sem varla gat gengið en hún staulaðist að altarinu og bað svo innilega að maður fann til með henni.  Svo allt í einu tóku allar kirkjuklukkurnar að hringja og þær eru nú ekki fáar, þá hafði konan örugglega beðið eftir að klukkan yrði 12 í þeirri von að auka áhrif bænanna. 
Það er óneitanlega sérstakt að verða vitni að trúarhita kaþólikkanna í samanburði við sinnuleysi okkar sem aðhyllumst hina lútersk evangelísku kirkju.  Við ráfum inn í okkar kirkju í mesta lagi einu sinni á ári og verðum ekki fyrir stórkostlegum hughrifum, það liggur við að ég öfundi kaþólska sem falla á hnén og bugta sig hvar sem þeir sjá Maríu mynd.  Það er eitthvað fallegt við þessa miklu trú á æðri máttarvöld þó að þessi sama trú hafi verið notuð til að pína og kúga lýðinn í þessum löndum öllum um aldir. 


Hér í Vilníus eru að mér skilst 24 kirkjur....  og, nei, ég er ekki búin að skoða þær allar :-)

Gamli bæjarhlutinn hér er afskaplega fallegur og margt að sjá.  Hluti hans er einskonar fríríki, Uzupis, sem á sína eigin stjórnarskrá.  Það plagg er afar sérstakt en um leið svo óendanlega gott og skemmtulegt.   Stjórnarskráin hefur verið þýdd á 10-12 tungumál og þar á meðal íslensku.  Það var gaman að því...


Síðdegis hittum vð Oleg og fórum í grasagarðinn sem er hér rétt fyrir utan borgina.  Mjög fallegur en greinilegt að allt hefur staðið hér í miklum blóma í maí.  Er búin að velja mér nokkrar rósategundir sem verða prófaðar í nýja gróðurhúsinu mínu sem vonandi kemst einhvern tíma upp...

Síðan var tekið forskot á sæluna á Armenskum veitingastað með Oleg og kærustunni hans.  Þetta er reyndar Lárus til hægri á myndinni.  Hann er að safna kjarki til að borða allar fjórar bökurnar sem eru fyrir framan hann.  Þetta var forrétturinn.  Ég er alveg steinhætt að skilja hvaða ófrægjugangur ríkir hérí matarmálum.  Skammtarnir eru svo svakalegir og réttirnir svo margir að þetta er ekki fyndið!
En svona réttur kostar reyndar um 2 EUR og aðalréttirnir 3 EUR svo verðið er allavega ekki að vefjast fyrir manni. 


Nú verður pakkað í kvöld og síðan allt gert sem hugsast getur til að slá á flugnabitin sem eru mig lifandi að drepa.  Þessi skógarpikknikk um daginn skilaði mér heilum 14 flugnabitum - öllum á ökklunum og ristinni,  Stökkbólgin og kláðinn er ansi svæsinn. Það verður gaman að fara í stóru flugferðina svona!  Hefði kannski átt að minnast á flugnabitin við Maríu mey en það hefði nú sjálfsagt varla verið við hæfi að ónáða hana með svona smáræði !

Annars er afar spennandi hvort við komumst yfirleitt til Armeníu því við erum ekki með vegabréfsáritun til Rússlands.  Datt það ekki til hugar enda var ég viss um að við værum transit farþegar.  En núna eru Litháarnir búnir að vera að hræða okkur með því að við þurfum að fara út og tékka okkur inn aftur.  Það getum við nefnilega ekki án vegabréfsáritunar.  Kannski endum við bara strand á flugvelli í Moskvu á morgun.  Ef allt virkar aftur á móti eins og það á að gera þá verður næsta færsla frá Yerevan í Armeníu...