Monday, June 29, 2015

Af sandölum, krossum, kalda stríðinu og vöskum...

Það var alveg hreint óborganlegt að verða vitni að timburmönnum Elitu og Ölmu í morgun.  Þær sátu ásamt Karolinu og Linasi til kl. hálf fimm og drukku vodka.  Það var ansi greinilegt í morgun hversu gáfulegt það var að pilla sér í bólið frekar snemma. Plan Elitu um að allir ættu alltaf að vera vaknaðir kl. 6 og farnir út ekki seinna en hálf átta er löngu fallið um sjálft sig og það er ekki mér að kenna ! ! ! 
Hástemmdar yfirlýsingar við morgunverðarborðið um að drekka aldrei framar urðu að engu strax á bílaplaninu þegar Alma dró úr pússi sínum fernu með sangría, nei og það var ekki alkoholfrítt  :-)

Byrjuðum á markaði hérna rétt hjá.  Hér eru afskaplega fáir ferðamenn, við höfum allavega ekki séð neina ennþá svo markaðurinn var afar heimilislegur.  Lárus hefur hug á því að kaupa sér sandala sérstaklega eftir að hann uppgötvaði að hann verður eineltisfórnarlamb á fjésbókinni með sama áframhaldi.  Þannig að minn betri helmingur fór á markaðinn til að kaupa sér sandala!  
Hann gleymdi reyndar einu örlitlu smáatriði - með í för voru þrjá litháskar konur, ein íslensk og síðan voru 2-3 heimakonur að afgreiða.  Hann brást við hinn versti þegar við vorum að reyna að aðstoða hann, ekkert nema geðvonskan.  Mátaði reyndar 2 eða 3 sandala af öllum þeim sem í hann voru bornir en togaði síðan sokkana langleiðina upp að hnjám, tróð sér aftur í leðurskóna og reykspólaði í í burtu.  Kunni greinilega illa að meta hjálpsemi okkar allra.  Bændabrúnka er augljóslega í uppsiglingu því Lárus fær ekki um frjálst höfuð strokið í svo sem mikið sem eina mínútu í þessari ferð :-)   Ég fæ ennþá óstöðvandi hláturskast ef ég leyfi mér að hugsa um viðbrögð karlmannsins í hópnum. 

Tilgangurinn með markaðsheimsókninni var að kaupa blóm því nú átti að heimsækja kirkjugarðinn.  Þar voru rósir settar á leiði allra sem Elita þekkir þar.  Ég rak augun í afar merkilegan sið.  Þarna eru sumir legsteinar merktir fyrirfram og leiðin eru þegar tilbúin en fólkið sprell lifandi.  Fyrst fannst mér þetta sérkennilegur ósómi en svo sá ég að þetta er hreint afbragðs hugmynd ef maður hefur til dæmis enga trú á að afkomendurnir holi manni tiltölulega sómasamlega niður. 
Þessi hjón eru til dæmis tiltölulega ung en greinilega við öllu búin .... 

Þetta er hún Elita sem spreglast svona skemmtilega í steininum.  Annars eru kirkjugarðar hér alveg forkunnarfagrir og gríðarlega mikið lagt í leiðin sem afkomendur verða síðan að sinna á hverjum degi ef vel á að vera ...

Þá var lagt af stað í nokkuð langa bílferð að stað sem kallaður er Hæð krossanna.  Þetta er staður sem talinn er helgur og boða fólki gæfu.  Uppúr 1860 fór fólk að setja þar krossa - annað hvort til að heita á Guð eða Maríu mey eða til að minnast látinna ættingja.  Kommúnistarnar leyfðu síðan engin trúartákn þegar þeir hertóku Litháen svo árið 1974, 1975 og 1976 var krossunum ítrekað rutt í burtu en alltaf komu þeir aftur og sífellt fleiri. Staðurinn varð þannig einnig tákn fyrir andspyrnu og sjálfstæðisbaráttu Litháa.
Núna eru þarna örugglega hundruðir þúsunda krossa ef ekki milljónir og ferðamenn koma alls staðar að á þennan helga stað.  Páfi heimsótti staðinn í lok 20. aldar og þá fyrst sló hann í gegn út um allan heim.

Við settum auðvitað líka kross eins og allir hinir.



Eftir að hafa ráfað um allt til að leita að góðum stað fyrir íslenska krossinn, fundum við honum stað við stóran kross sem átti að veita manni styrk til að finna ávallt rétta leið.  Það fannst mér vel til fundið-oft veitir nú ekki af !

Heimsóttum síðan st. Fransisku klaustur sem þarna var rétt hjá.  Fallegt en afar nútímalegt enda byggt eftir heimsókn páfa fyrir um 15 árum síðan.  Þarna var storkahreiður með allavega þremur stórum ungum sem mér fannst ekki síður merkilegt en klaustrið...

Þaðan fórum við á kaldastríðssafn þar sem Lárus var alveg í essinu sínu eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan: 

Þetta eru gríðarleg neðanjarðarbyrgi og miklir ranghalar.  Fjórar eldflaugar með kjarnaoddum voru geymdar þarna á dögum kalda stríðsins og þarna fórum við m.a. inní einn skotpallinn. Þetta var afar fróðlegt þó að ég sé ekki jafn mikill aðdáandi stríðsminja og betri helmingurinn.  Ég fyllist alltaf svo mikilli hryggð yfir mannvonskunni þegar ég sé svona lagað.  Hef litla þörf fyrir að dást að drápstólum.

Við erum reyndar heppin að vera þarna ekki ennþá.  Því það var bannað að fara þarna inn nema með guide, en okkar fólk fór nú ekkert eftir því svo miðað við ranghalana þá er furðulegt að við skyldum komast út aftur.

Hér eru Lalli og Linas við þakið yfir einum skotpallinum.

Það er eindregið og meðvitað verið að reyna að drepa okkur í þessari ferð. Í kvöld vorum við í matarboði hjá vinkonu Elitu.  Hún er ekkja og vildi svo gjarnan taka vel á móti okkur.  Þetta er mynd af kvöldverðarborðinu.  Bendi á þá staðreynd að við vorum 4 í mat og myndin er tekin áður en heitu réttirnir komu á borðið ! ! !

Hér tók ég svo mynd að eftirréttunum - en hvað haldið þið ... 
Bættist svo ekki ein tertan við til viðbótar ! ! !
Við drösluðumst gjörsamlega magnvana af ofáti upp í íbúð í kvöld því:  "þú verða smakka allt, Aldís, annars vinkona verða mjög reiður!"

Hér er síðan ein mynd af blokkinni þar sem við búum í íbúð Karolinu og Linasar.  Þessi blokk var byggð fyrir embættismenn Sovét á sínum tíma.  En Elitu tókst einhvern veginn að eignast hana.  Það sést víst alveg hvaða íbúðir eru byggðar af kommúnistunum.  Hér er til dæmis ekki vaskur á baðherberginu.  Það er bara stór krani yfir baðkarinu og það dugar reyndar alveg.   Vinkonan er líka í KGB blokk og þar er þetta alveg eins. Vaskar voru greinilega vestræn, vond uppfynning, sem maður getur alveg verið án, ég sé það núna...

No comments:

Post a Comment