Monday, July 6, 2015

Beðið eftir bílnum til Karabakh.

Dagleg heimsókn mín á spítalann var ansi löng í dag og ég hef grun um að það hafi verið vegna þess að beðið var eftir nemum sem komu svo í tvígang á stofuna til mín af skoða þetta fyrirbrigði sem hér hefur skolað á land.  Var send með sprautum og lyf  "í nesti" og á að mæta aftur um leið og ég kem frá karabakh og þá fæ ég skýrlsurnar og niðurstöður úr öllum þessum prófum sem búið er að gera hér.  Reyndar á rússnesku svo það er spurning hvað ég á að gera við þetta heima ....  Læt Ómar heimilslækni um að svita yfir því :-)

En við höfðum pantað Karen og hann keyrði með okkur út um allt í morgun.  Þessi ungi maður er hreint frábær og við hefðum ekki séð nema brot að því sem við erum búin að gera ef við hefðum ekki hitt hann.  Í morgun fóru við í Ejtsemin sem er ein elsta dómkirkja kristninnar. Ótrúlega falleg og saga hennar er engu lík.  Byggð um 500 e.Krist.  Fórum líka í "litla Vaticanið" en þar eru höfuðstöðvar Armensku kirkjunnar.  Mjög gaman að koma á báða þessa staði.  
-------
Það er alveg sama hvar við höfum drepið niður fæti á ferðalögum okkar undanfarin ár, allir þekkja Ísland og þrá að koma í heimsókn.  Strákurinn í lobbýinu á hótelinu okkar hér í Yerevan á vin sem er svo heillaður af Sigurrós að hann er búinn að leggja á sig að læra íslensku til að geta þýtt textana þeirra.  Læknirinn minn á sjúkrahúsinu sem ég hitti daglega er orðin mikil vinkona okkar og hún ætlar að heimsækja okkur til Íslands með fjölskyldunni næst þegar hún á almennilegt frí, sem er víst reyndar ekki oft.  Karen, leigubílstjórinn sem við höfum eingöngu verið með, mun sjálfsagt aldrei hafa efni á Íslandsferð en hann er veikur að koma í heimsókn rétt eins og gullfallega konan hans sem á afmæli í dag.   Þau vilja ólm bjóða okkur heim í afmælisveislu á fimmtudagskvöldið þegar við komum frá Karabakh. Við erum að sjálfsögðu búin að þiggja það.   Elskulegheitin sem við njótum hér eru engu lík og það er svo auðvelt að falla fyrir þessu landi og íbúum þess.   Ég dreifi hér á báða bóga íslensku brennivíni og fjallagrasavíni, íslensku lava salti, bókum og segulstálum og öllum finnst þetta mjög merkilegt.  Hefði átt að koma með meira af bókum reyndar, sé ég núna.

En eftir örfáar mínútur verðum við sótt á hótelið og við tekur akstur inn til Karabakh, þar fáum við áritun á landamærunum sem dugar að borga fyrir.  Hittum norskan strák í gær sem ráðlagði okkur að láta ekki stimpla vegabréfið heldur að fá stimpilinn á sér blað, því þónokkur ríki hleypa ekki inn í lönd sín fólki sem hefur ferðast til Karabakh.  Við myndum til dæmis ekki komast til Azerbaijan með þannig ferðasögu.

No comments:

Post a Comment