Wednesday, July 1, 2015

Komin til Vilníus ...



Hér er Elita með Karolinu, Linnasi og Eymantas.  Það var óneitanlega svolítið erfitt að kveðja enda mamma og amma ansi langt í burtu og afskaplega langt á milli heimsókna.  Elita kom síðast til þeirra fyrir 5 árum svo það er ekki einfalt að flytja svona í annað land. 

Nú erum við búin að hitta ókjör af Litháum og það sem er svo dapurlegt er að undantekningalaust eiga þeir börn búandi í öðrum löndum og ekkert þeirra er á leiðinni heim.   Undantekningalaust horfa þeir til Íslands með öfundaraugum og sjá lífsgæði okkar í hyllingum.  Vinkona Elitu hefur til dæmis 100 EUR í örörkubætur á mánuði og þarf að borga hita, rafmagn, kalt vatn og annað með þessu.  Vatnið kostar til dæmis yfir 20 EUR á mánuði.  Hún myndi aldrei geta tórt hér nema af því að hún á dóttur sem hugsar um hana og vinkonu eins og Elitu sem gerir það líka.  Fólkið sem flutt er úr landi sér um foreldra sína og ættingja hér að stóru leyti.  Hjúkrunarheimili eru til dæmis ekki til nema í alstærstu borgum og bara fyrir ríka fólkið.  Við hittum hjón á okkar aldri þar sem pabbi hans, 85 ára, veikur og rúmfastur, býr heima hjá þeim og þau hugsa algjörlega um hann.   Þannig mun það vera þangað til hann deyr.  Það er víst einhver ráðherra núna að leggja fram tillögur um að fækka innlögðum sjúklingum svo að gamla fólkið geti allavega dáið á spítala.  Fólk bindur miklar vonir við þessar tillögur. 
Annars eru allir svo stoltir af landinu sínu, matnum og menningunni.  Allir myndu helst af öllu vilja vera hér en það er ótrúlegt vonleysi í mörgum varðandi framtíðina.  Þegar ég sagði þeim að heima á Íslandi vildu svo margir fara til Noregs af því að lífið væri svo ömurlegt og lífsgæðin svo slæm að margra mati, þá hreinlega skyldu þau ekki hvað ég var að segja.   Reyndar komst síðan einn svo ansi vel að orði:  þú getur alltaf fundið eitthvað sem er betra, einhvers staðar ef þú ert stöðugt að leita! 


Myndin hér að ofan er frá yndislegum stað rétt fyrir utan Vilnius sem heitir Belmontes, eldgamall herragarður sem breytt hefur verið í útivistarsvæði og veitingastaði.  Þarna fórum við honum Oleg vini Grantasar frá Armeniu sem hér býr.   Hann sótti okkur til Kaunas og er búinn að vera með okkur í dag.   Litháíska hefur sungið í eyrum okkar undanfarna daga og ég verð að viðurkenna að það tekur á.  Hér hafa þeir sem við höfum hitt undantekningalaust ekki talað ensku nema afar bjagað ef eitthvað.  Þetta er ekki alveg einfalt en mikið hrikalega eru allir gestrisnir hérna.  Fólk vill allt fyrir okkur gera og við erum alltaf að borða.  Hér snýst allt um mat !

Nú erum við komin á eitt glæsilegasta hótelið í Vilnius og erum búin að labba og keyra hreint um allt með honum Oleg. Afskaplega lúin eftir langan dag.

Þetta skilti vakti athygli...

Þessar eru teknar í Palanga ...